Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Lokaorð Örvars: Kórónafréttir
Föstudagur 6. mars 2020 kl. 15:21

Lokaorð Örvars: Kórónafréttir

Um fátt annað er rætt í fjölmiðlum þessa dagana en kórónuveiruna. Alls ekki skrítið enda mjög alvarlegt mál sem hefur áhrif á okkur öll. Eðlilegt er að ótti breiði um sig hjá fólki á svona tímum en það er mikilvægt að halda ró sinni og fylgjast með réttum upplýsingum, t.d þeim sem berast beint frá heilbrigðisyfirvöldum.

Blaðamannafundir almannavarna og landlæknis eru gott dæmi um réttar og góðar upplýsingar. Einhverjir fjölmiðlar eru þó í bilaðri samkeppni um smellina og það er vitnað í ótrúlegasta fólk sem sérfræðinga í málinu. Þingmaður og leikkona vilja helst loka landinu og segja sóttvarnalækni ekki vita neitt um það sem hann er að segja. Útfarastjórar voru víst búnir að setja sig í stellingar og apótekin hækkuðu verðið á handspritti um þúsundir prósenta eða það var víst bara eitthvað bull eins og svo margt annað sem hefur komið fram. Dregin er stundum upp sú mynd að nánast heimsendir sé í nánd þó svo sérfræðingar segi allt annað og hvetji fólk til þess að halda ró sinni. Þá eru ákveðnir fjölmiðlar sem horfa á þetta sem keppni, fyrstu fréttir eru ávallt dánartölur og hversu margir hafa sýkst. Þulið upp eins og hálfleikstölur í íþróttakappleik með tilheyrandi dramatík. Þó svo þessi veira sé mikið alvörumál þá þarf að vanda sig og skapa ekki óþarfa ótta og æsing.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt sérfræðingum bendir allt til þess að þessi faraldur sé nokkuð vægur, hlutfall sýktra er frekar lágt og dánartíðnin er mjög lág. Persónulega hef ég meiri áhyggjur af efnahagslegum áhrifum þessa faraldurs og tel að hvergi sé umræðan jafn hysterísk (má ekki segja móðursjúk) og hér á landi. Auðvitað eigum við að taka þessu alvarlega og okkur ber sérstaklega skylda til þess að verja þá viðkvæmu, þá sem eru veikir fyrir. Hlustum á sérfræðingana og förum eftir þeirra ráðum og leiðbeiningum, nóg er af misvísandi upplýsingum sem ber að taka með fyrirvara. Sýnum hvort öðru tillitssemi, umræðan þarf að vera yfirveguð og skynsöm sérstaklega hjá fjölmiðlum. Nú þegar eru hundruðir manna í sóttkví hér á landi sem sýnir fram á góðan viðbúnað og að yfirvöld taki þessu alvarlega. Ellefu smit staðfest hér á landi þegar þessi pistill er ritaður og sendi ég batakveðjur á alla þá aðila.

Örvar Þór Kristjánsson.