Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Lokaorð Margeirs: Tilraunadýr
Föstudagur 12. febrúar 2021 kl. 08:12

Lokaorð Margeirs: Tilraunadýr

Nú tröllríða þjóðfélaginu sögur af væntanlegum samningi stjórnvalda við bandaríska lyfjarisann Pfizer um bólusetningu íslensku þjóðarinnar. Tilgangurinn mun vera fjórða stigs tilraun á hversu mikla vörn bóluefnið veitir heilli þjóð gegn Covid – eða svo er sagt.

Það eru allir orðnir þreyttir á núverandi ástandi, þrátt fyrir að okkur sé sagt að við höfum það í raun mjög gott miðað við aðrar þjóðir. Hér er jú ekkert „lockdown“. Við fundum bara betra orð yfir það, köllum það samkomubann. Reynt hefur verið að gera eins lítið og hægt er úr umræðu um hrikalega fylgikvilla viðbragða við heimsfaraldrinum sem eru gríðarleg aukning í sjálfsvígum og atvinnuleysistölur sem ekki hafa sést síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Atvinnuleysið á Íslandi er mest á Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það þurfti kannski ekki endilega að koma á óvart en fréttaflutningur af gríðarlegum dauðsföllum af völdum Covid í Bandaríkjunum nánast til lagðist af á Íslandi um leið og Joe Biden tók við forsetaembættinu þar í landi. Við fengum fréttir af því hvernig hann tók strax til hendinni við að snúa mörgum ætluðum heimskulegum forsetatilskipunum Trump en engar fréttir bárust af því hversu mörg störf töpuðust í Bandaríkjunum við þessa snúninga. Við trúum bara því sem við lesum, sjáum og heyrum í fréttum. Sannleikann má alltaf að finna á RÚV.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er annað íslenskt ferðasumar framundan. Landið okkar hefur upp á gríðarlega mikið og gott að bjóða. Við skulum njóta þess, því um leið og við losnum úr prísundinni erum við rokin til heitari landa að sjúga vítamín úr sólinni. Hugsanlegt er að frelsið verði keypt af bandarískum lyfjarisa því hér á norðurhjara veraldar er þjóð sem kosið hefur til valda fólk sem telur virði frelsis hennar ekki meira en einnar fjórða stigs tilraunar bóluefnis. Ég get ekki að því gert en að mér sækja ýmsar áleitnar spurningar þegar stjórnvöld frjáls lýðræðisríkis bjóða þjóð sína sem tilraunadýr. Sama fólk og heimtar nýja stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslur um mál sem telja má sem dægurmál eru tilbúin að kvitta upp á samning án þess að gera eina einustu athugasemd.

Þegar þjóð er einu sinni búin að selja sig sem tilraunadýr, mun þá eftirspurn aukast eftir þjónustu þessarar þjóðar í því hlutverki. Hvaða tilraun tökum við að okkur næst?

Svarið við þeirri spurningu mun ný ríkisstjórn sem tekur við völdum í haust veita. Það verður ríkisstjórnin sem lendir í tiltektinni eftir Covid. Ríkisstjórnin sem mun þurfa að hækka skatta og álögur á íbúa sína til að greiða fyrir áfallið sem riðið hefur yfir seinni hluta kjörtímabilsins. Þingmenn eru mættir til vinnu og keppast nú við að minna fólk á eigið ágæti til þess að ná endurkjöri. Það er nefnilega gott að vera í vinnu sem tryggir laun upp á rétt um tvær milljónir á mánuði og ríkulega fríðindi til viðbótar. Mæting er þar að auki frjáls. Aðstoðarmenn og bílaleigubíll til afnota með eldsneyti. Hver er ekki tilbúinn að taka sex mánaða kosningaslag um það og setja jafnvel einn eða tvo rítinga í bak einhverra samflokksmanna bara til að komast ofar á listann. Auðvitað er hægt að lofa öllu fögru og gera svo lítið í fjögur ár, því það er flokkurinn og flokkshollustan sem ræður. Bara undir því að gegna liggja 48 mánuðir af tveimur milljónum á mánuði og ríkulegar greiðslur í lífeyrissjóði eða svona um 100 milljónir í eigin vasa næstu fjögur árin. Kjör sem fólkið kaus um sjálft handa sjálfu sér, greitt af skattgreiðendum. Svo má ekki gleyma því sem þarf til reksturs flokksins. Flokkurinn þarf sitt því flokkurinn er trúarbrögð. Sama hvort hann heitir Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Píratar, Framsókn eða Vinstri grænn. Sameiginlegt með þessum trúarbrögðum er að þau láta málefni Suðurnesja sig litlu varða. Sama fólkið á þingi mun bjóða upp á sömu niðurstöður og árin þar á undan.

Verkefnið framundan
er að breyta þessu.

Margeir Vilhjálmsson.