Lokaorð: Frelsi og ábyrgð
Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur
Eftir þennan langa, skrýtna, innilokaða og já, leiðinlega vetur erum við vonandi loksins að sjá til sólar í orðsins fyllstu merkingu. Sumarið er komið, við megum loksins hitta annað fólk, ferðast um landið okkar og jafnvel fara að huga að utanlandsferðum. Við erum smám saman að fá frelsið okkar til baka, frelsið sem við höfum alltaf álitið sjálfsagt og aldrei látið okkur detta í hug að myndi skerðast með þeim hætti og við höfum upplifað á síðustu mánuðum.
Sóttkví, samkomubann, tveggja metra reglur og landamæralokanir eru fyrirbæri sem mér hefði ekki dottið til hugar að ég ætti eftir að upplifa en öll þurftum við einfaldlega að aðlaga okkur að þessum breytta veruleika. Eins og aðrir er ég mjög stolt af því hvernig við Íslendingar höfum staðið saman, hlustað á sérfræðingana og farið að fyrirmælum. Þannig komumst við á þann eftirsóknarverða, en viðkvæma, stað sem við erum á núna. Vonandi til frambúðar.
Gleymum því aldrei að frelsi fylgir alltaf ábyrgð. Og til þess að ná að endurheimta það að fullu verðum við halda áfram að hlusta á sérfræðingana og fara að fyrirmælum. Það eru ferðatakmarkanir í gildi, við höfum val um sóttkví eða skimanir og eigum að halda kyrru fyrir þar til niðurstaða fæst. Punktur. Það eru leikreglurnar og ég er kannski svo hlýðin og ferköntuð að mér datt ekki til hugar að nokkur maður myndi fara á svig við þær.
Fréttin um erlendu glæpamennina sem, í fyrsta lagi, komu hingað gagngert til þess að rupla og ræna og, í öðru lagi, rufu sóttkví, smituðu lögregluþjón og settu sextán manns í sóttkví gerði mig brjálaða. Þetta er fávitaskapur af verstu sort og það á að senda þetta fólk úr landi með það sama og leyfa þeim aldrei að koma hingað aftur. Fréttin um farþegann sem var að koma frá Kaupmannahöfn og neitaði að vera með andlitsgrímu fór líka í taugarnar á mér. Þar þurfti að kalla til lögreglu og eyða dýrmætum tíma hennar í einhvern leiðindakall með stæla.
Ég get ekki sagt að fréttin um ferðamennina tvo sem skimaðir voru í flugstöðinni og reyndust smitaðir hafi glatt mig en þó sýndi hún fram á það að þetta kerfi sem búið er að setja upp sé að virka. Og það veitir mér ró.
Þetta er svo einfalt. Við viljum öll gamla lífið okkar aftur þar sem við gátum gert alls konar. Það er bara ekki allt í boði núna og þangað til þurfum við að hlýða og fara að fyrirmælum.
Þá birtir aftur til.