Loðnuveiðar hófust frá Sandgerði
Samkvæmt dagatalinu þá á að vera komið sumar en miðað við hversu kalt er búið að vera á Suðurnesjum síðustu daga, þá fer eitthvað lítið fyrir þessu blessaða sumri.
Þrátt fyrir kuldann var mikið um að vera í Sandgerði vikuna fyrir hvítasunnuhelgina því hátt í 60 bátar voru að landa á hverjum degi í Sandgerði og af þeim voru um 50 til 54 strandveiðibátar.
Veiði strandveiðibátanna var mjög góð og náðu þeir allir skammtinum sínum – og smá auka með því töluvert er að ufsa í afla bátanna. Bátarnir voru flestir á veiðum við Garðskagavita og síðan meðfram ströndinni áleiðis að Reykjanestá.
Það er kannski oft mikið mál að fjalla um alla strandveiðibátana sem eru að veiða en lítum á nokkra. Gullfari HF 4,5 tonn í sex róðrum, Guðrún GK 7,1 tonn í sjö róðrum, Dýrið GK 6,7 tonn í átta róðrum, Gola GK 6,5 tonn í átta róðrum, Margrét SU 5,5 tonn í sjö róðrum, Hafdalur GK 8,8 tonn í átta róðrum, Tóki ST 6,9 tonn í níu róðrum, Giddý GK 6,7 tonn í sjö róðrum, Dímon GK 6,6 tonn í átta, Sandvík KE 6,4 tonn í sjö og Kiddi GK 6,3 tonn í átta róðrum, allir bátarnir að landa í Sandgerði.
Einn af þeim bátum sem hefur verið á strandveiðunum er nýr bátur sem heitir Hadda HF 52. Skipstjóri og eigandi bátsins er Þorvaldur Árnason en hann lenti í því óhappi að 129 metra langt flutningaskip, sem var á siglingu utan við Garðskagaflösina, og báturinn Hadda HF lentu í árekstri og Höddu HF hvolfdi. Sem betur fer var Arnar Magnússon, skipstjóri, rétt hjá bátnum og náði Arnar að bjarga Þorvaldi. Hadda HF var síðan dregin til hafnar í Sandgerði og maraði báturinn í kafi alla leiðina til Sandgerðis.
Nafnið Hadda er Sandgerðingum ansi vel kunnugt því móðir Þorvalds, Halldóra Þorvaldsdóttir, var kölluð þessu nafni. Hún bjó með manni sínum, Árna Árnasyni, í Landakoti í Sandgerði. Bróðir Árna var Óskar Árnason sem rak rækjuverksmiðju í Sandgerði sem bar nafn hans og rak hann rækjuverksmiðjuna í hátt í 25 ár. Ég sjálfur vann meðal annars í rækjuverksmiðjunni og þá var Hadda líka að vinna þar.
Hadda og Árni voru saman í útgerð og gerðu út eikarbát í mörg ár sem hét Hjördís GK en sá bátur sökk utan við Stafnes árið 1990. Árni Árnason lést árið 1993 og áttu þau þá plastbát sem hét Hafdís GK 32. Eftir að Árni lést gerði Hadda út Hafdísi GK til 1997 þegar að báturinn var seldur. Saga Hafdísar endaði árið 2008.
Faðir Árna hét Árni Magnússon en árið 1963 hafði hann verið skipstjóri á bátum frá Sandgerði og gekk mjög vel en hann ásamt bróður sínum, Einar Magnússyni, og skipstjóranum Hrólfi Gunnarssyni fengu glænýjan bát í júní árið 1963 og fékk hann nafnið Árni Magnússon GK 5. Hrólfur Gunnarsson var mikill aflaskipstjóri og má geta þess að þessi sami bátur var einn af fyrstu bátum hérna á Íslandi til þess að veiða loðnu en það var í febrúar árið 1964.
Fram að þeim tíma var ekki litið við loðnu og voru allir bátar sem voru á nótaveiðum á síld og enginn var að spá í loðnunni. Þarna í febrúar árið 1964 fékk Árni Magnússon GK fullfermi af loðnu sem voru tæp 160 tonn og þar sem enginn bræðsla vildi kaupa loðnuna var henni allri landað og seld línubátasjómönnum um allt Suðurland og Vestfirði.
Í veiðiferð númer tvö reyndi Hrólfur að selja bræðslum loðnuna en það var ekki fyrr en Guðmundur Jónsson, sem þá var með loðnuverksmiðju í Sandgerði, ákvað að kaupa fyrsta loðnufarminn og þar með hófust loðnuveiðar hérna við land. Þannig að báturinn Hadda HF og saga fjölskyldu Þorvalds skipstjóra er ansi merkileg með tilliti til þess að það var fólk í hans fjölskyldu sem var fyrst til þess að hefja loðnuveiðar og heimabærinn þeirra, Sandgerði, var fyrsti bærinn á landinu til þess að bræða loðnu.