Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Ljúft líf og ábyrg afneitun
Föstudagur 19. nóvember 2021 kl. 07:37

Ljúft líf og ábyrg afneitun

Ég hef nú búið í París í þrjá mánuði og lífið er ljúft. Langir vinnudagar, mikið annríki og margt að læra en allt saman ótrúlega spennandi, gefandi og nærandi. Fjölskyldunni líður vel og það má segja að við séum í súper notalegri Parísarbúbblu þar sem fjölskyldutempóið er rólegra og við náum að verja meiri tíma saman en við venjulega gerðum heima í Keflavík. Svo er búið að vera fínasta rennirí af Íslendingum til Parísar, með tilheyrandi gestagangi vina og ættingja sem gerir dvölina ennþá skemmtilegri.

Ég er að læra frönsku, sem gengur að vísu ekki nógu hratt að mínu mati, en þó alltaf betur með degi hverjum og gamla stúdentsprófið úr Kvennó er líka þarna einhvers staðar og hjálpar vissulega til. Ég get gert mig skiljanlega í bakaríinu og bjargað mér í einföldum samræðum og skil meira en ég get talað („Loksins“ myndi einhver segja, þar kom að því að ég hlusta meira en ég tala!). Ég er mjög stolt af því að ég náði meira að segja að halda þræði í sjónvarpsávarpi Macrons forseta um daginn sem átti að vera um stöðuna í Covid-málum. Ég hélt að vísu um tíma að ég væri að misskilja þetta allt saman hrapalega þegar ég gat ekki betur skilið en að hann væri farinn að tala um lífeyrissmál í miðju Covid-ávarpi, en svo kom á daginn að hann var aðeins að nota tækifærið fyrst hann hafði óskipta athygli þjóðarinnar til að þess að plögga lífeyrismálunum sem verða eitt af stóru kosningamálunum í forsetakosningunum næsta vor.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Og talandi um Covid. Þetta var sum sé í fyrsta sinn á þessum þremur mánuðum sem ég hef horft á eitthvað í frönsku sjónvarpi um Covid. Ég les enn sem komið er ekki mikið af frönskum netmiðlum og engin frönsk dagblöð. Minn daglegi fréttarúntur eru enskumælandi miðlar sem sjá mér vel fyrir heimsfréttunum og svo tek ég auðvitað stöðuna á íslensku miðlunum nokkrum sinnum á dag. Þar sé ég mjög nákvæmar Covid-fréttir daglega, fjöldi smitaðra á uppleið, áhyggjufullan Þórólf og brjálaða veitingamenn í miðbænum. Ég sá meira að segja í gær á mbl.is að sóttvarnarstofnanir Bandaríkjanna og Evrópu væru að vara sérstaklega við ferðum til Íslands – og að samkvæmt sömu Evrópustofnun færi Covid-smitum í Evrópu mest fjölgandi í Frakklandi. Þar fór í verr!

En þá er svo gott að geta verið í afneitun. Því ég hef ekkert heyrt um þetta í frönskum fréttum, enginn á skrifstofunni minni er að tala um þetta, enginn í bakaríinu né á hverfis veitingastöðunum. Þar heldur lífið áfram nokkuð eðlilega, ef hægt er að tala um eðlilega Covid-tíma. Við höldum bara áfram að setja á okkur grímurnar alls staðar þar sem fólk kemur saman, hvort sem það er í verslunum, leigubílum, metróinu eða á skrifstofunni og framvísum „Pass Sanitaire“ samviskusamlega þar sem hans er krafist til að sýna fram á að við séum bólusett eða með nýtt Covid-próf. Veitingastaðir, klúbbar, landamæri o.s.frv. eru opin og ég er t.d. að fara til Lissabon á eftir og er að átta mig á því þegar þetta er skrifað að ég hef ekki einu sinni tékkað á því hvort ég þurfi að fara í Covid-próf fyrir flugið ... væri kannski ráðlegt að gera það. Ég veit ekki hver hinn franski „Þórólfur“ er, veit ekki hvað hann heitir og þekki hann alls ekki í sjón. 

Og það er bara frekar ágætt. Ég lifi í ljúfri afneitun, spritta mig og fer varlega, en algerlega ómeðvituð um það að smitum í Evrópu fari mest fjölgandi í Frakklandi. Ljúf afneitun eða kannski bara ábyrg afneitun? Okkur líður alla vega vel – bestu kveðjur frá París.