Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Lífsgæði í Leiru
Föstudagur 2. ágúst 2024 kl. 06:09

Lífsgæði í Leiru

Lengsta sjónvapsútsending frá Suðurnesjum sem ekki var frá hamförunum í Grindavík var um þarsíðustu helgi. Íslandsmótið í golfi í Leirunni. Frægasta golfhola landsins, Bergvíkin, skartaði sínu fegursta. Sjónvarpsáhorfendur fengu í fyrsta sinn að sjá þessa glæsilegu golfholu bæði á flóði og í fjöru í beinni útsendingu. Leirulognið hafði hægt um sig allt fram á lokadag en þá fengu keppendur að eiga við Leiruna eins og hún gerist best.

Forystumenn Golfklúbbs Suðurnesja hafa staðið sig gríðarvel undanfarin ár í bætingum á vallarsvæðinu sem stöðugt verður glæsilegra. Ekki hafa viðlíka framkvæmdir átt sér stað hjá klúbbnum síðan í formannstíð Einars Magnússonar, tannlæknis, um síðustu aldamót og held ég að honum verði aldrei fullþökkuð sú eljusemi sem hann sýndi við uppbyggingu mannvirkja á svæðinu. En það voru aðrir á undan honum og ber þar helst að nefna bræðurna Hörð og Hólmgeir Guðmundssyni sem eru guðfeður Hólmsvallar í Leiru og Loga heitinn Þormóðsson sem hélt Landsmót með stæl í Leirunni 1986.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Golfklúbbur Suðurnesja fagnar á þessu ári 60 ára afmæli. Að mínu mati eru er tveir bestu golfvellir landsins í Leirunni og í Vestmannaeyjum. Ég hef haldið því fram við nokkra Eyjamenn að ef þeir héldu rétt á spilunum gætu þeir haft meiri tekjur af golfvellinum heldur en Þjóðhátíðinni. Þeir hafa allir haldið mig bilaðan. Fyrir golfáhugamenn sem sátu við sjónvarpið um helgina var sýnt frá Íslandsmótinu á Hólmsvelli í Leiru og frá Opna mótinu (e. The Open) sem leikið var á Royal Troon vellinum í Skotlandi. Royal Troon er örlítið eldri en Hólmsvöllur en þar byrjuðu menn að leika golf árið 1878. Að leika einn átján holu hring á Royal Troon kostar 65.000 kr. Fullt vallargjald er Leirunni er 12.000 kr. en almennt eru gestir að greiða vallargjald uppá um 6.500 kr., eða einn tíunda af því sem kostar að leika á Royal Troon.

Lesendur geta sjálfir farið í útreikningana en í golfheiminum er mestur vöxtur í þeim geira sem kallast „Destination Golf“ en þeir sem eru illa haldnir af golfbakteríunni ferðast um heiminn og leika golfvelli á afskekktum stöðum og greiða rausnarlega fyrir vallargjöldin. Það þarf t.d. ekki nema 5.000 leikna hringi á golfvelli fyrir viðlíka vallargjald og á Royal Troon til að jafna við tekjurnar af Þjóðhátíð. Árlega eru leiknir ríflega 18.000 hringir á Hólmsvelli.

Það eru fólgin í því mikil lífsgæði fyrir Suðurnesjamenn af hafa aðgang að fjórum frábærum golfvöllum á svæðinu fyrir vægast sagt mjög hóflegt árgjald. Golfvellirnir í Sandgerði og Grindavík eru mjög góðir og ekki má gleyma flottum níu holu Kálfatjarnarvelli á Vatnsleysuströndinni. Njótið þessara lífsgæða. Golf lengir lífið.