Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Leitum  tækifæra í áskorunum
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ
Laugardagur 1. janúar 2022 kl. 10:25

Leitum tækifæra í áskorunum

Árið 2021 verður lengi í minnum okkar Suðurnesjamanna haft. Ekki bara út af margvíslegum áskorunum sem fylgja heimsfaraldri Covid-19 heldur einnig eldgosi og miklu atvinnuleysi svo dæmi séu tekin. Ef okkur tekst að draga lærdóm af þessa ættum við að koma sterkari út úr árinu en við vorum þegar það hófst.

Fjarfundir og fjarvinna héldu áfram

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áður en heimsfaraldurinn hófst voru mörg fyrirtæki og sveitarfélög, þar á meðal Reykjanesbær, farin að kynna sér og prófa fjarfundi  og fjarvinnu. Þetta var þó afmarkaður hópur áhugsamra einstaklinga af yngri kynslóðinni sem voru móttækilegir og tilbúnir til að prófa sig áfram með nýleg og tiltölulega einföld forrit eins og Teams og Zoom. Þegar heimsfaraldurinn skall á má segja að ungir sem aldnir hafi orðið að hraðspóla í gegnum lærdómsferlið, stökkva yfir nokkur tímabil og læra á þessar nýju aðferðir með hraði. Það hefur tekist vel og nú þykir sjálfsagt að bjóða fólki upp á fjarfundi jafnt og hefðbundna fundi og samtöl þar sem fólk hittist í raunheimum, eins og það er kallað. Þetta er að mínu mati af hinu góða og býður upp á margskonar hagræðingu og tímasparnað, svo ekki sé talað um akstur á milli staða, minna kolefnisspor, betri nýtingu auðlinda o.fl.

Starfsmenn Reykjanesbæjar voru nokkuð vel settir. Nokkrum mánuðum áður en faraldurinn skall á hafði verið gert átak í fartölvuvæðingu stórra hópa starfsmanna svo það var tiltölulega auðvelt fyrir fólk að vinna heiman frá sér.

Þröng á þingi

Annað úrlausnarefni sem bíður okkar er betri nýting húsnæðis og meira rými. Starfsemi Reykjanesbæjar dreifist á tæplega 40 vinnustaði víðs vegar um sveitarfélagið. Margt af því húsnæði sem starfsemin fer fram í er komið til ára sinna og að sumu leyti úrelt. Húsakynni og skrifstofur, sem áður hýstu deildir og starfsemi sem þjónaði tíu þúsund manna samfélagi, eru nú þétt setin. Mörg rými sem upphaflega voru ætluð einum til tveimur starfsmönnum eru nú nýtt af þremur til fjórum starfsmönnum svo erfitt getur verið að tryggja tveggja metra bil á milli starfsmanna. Þá eru loftræstikerfi víða orðin gömul og þarfnast endurnýjunar. Til að mæta þessu áskorunum hafa margar deildir, sem það geta, þróað verklag sem gerir ráð fyrir að starfsfólk vinni að hluta til heiman frá sér. Þetta á meðal annars við ráðhúsið við Tjarnargötu. Þar eru nær öll skrifstofurými þétt setin og löngu tímabært að uppfæra og aðlaga innra skipulag hússins, sem var hannað og byggt fyrir 30 árum. Upphaflega hýsti húsið Sparisjóðinn og síðar Landsbankann, Lífeyrissjóð Suðurnesja og hluta af starfsemi bæjarskrifstofunnar en einstaka einingar eins og tæknideild, fræðslusvið og bóksafn voru staðsett annars staðar. Þegar bankinn og lífeyrissjóðurinn fluttu út tók Reykjanesbær húsið alfarið  undir starfsemi ráðhúss. Síðan þá hefur bærinn stækkað, ný verkefni verið færð til sveitarfélaga og kröfur til skrifstofuhúsnæðis breyst mikið.

Vinnuvikan stytt

Einn liður í Lífskjarasamningunum svokölluðu var ákvæði um tilraunaverkefni á samninsgstímanum sem miðaði að styttingu vinnuvikunnar í tilraunaskyni hjá hluta vinnumarkaðarins. Hjá sveitarfélögnum var markmiðið að styttinging hefði hvorki í för með sér aukinn launakostnað né skert þjónustustig. Flest sveitarfélög, þar með talið Reykjanesbær, ákvað í fyrstu umferð að fara í lágmarksstyttingu eða um þrettán mínútur á dag. Það hefur gengið að langflestu leyti vel en þó er ljóst að einstaka stéttir hópar hefðu viljað ganga lengra. Besta leiðin til að gera það, án þess að auka kostnað eða skerða þjónustu, er væntanlega sú að stytta opnunartíma lítillega. Það verður þó varla hægt fyrr en stytting vinnuvikunnar verður almennt komin í framkvæmd víðar, t.d. á almennum vinnumarkaði. Þetta hefur ekki verið útfært en þegar samningstíma Lífskjarasamningins lýkur verður reynslan af styttingu vinnuvikunnar rýnd og metin og næstu skref ákveðin.

Jafnrétti í forgrunni

Reykjanesbær, eins og mörg önnur sveitarfélög, fékk jafnlaunavottun í lok árs 2020 og aftur 2021. Það þýðir að ekki sé sjáanlegur munur á launasetningu starfsmanna eftir kynjum en slík vottun er mikilvæg staðfesting á því að starfsfólk geti treyst því að faglega sé staðið að ákvörðun launa. Sveitarfélagið fékki einnig viðurkenningu á árinu frá Jafnréttisvoginni en það er verkefni sem unnið rekið er af Félagi kvenna í atvinnulífinu í samstarfi með forsætisráðuneytinu, Sjóvá, Deloitte, RÚV og Pipar\TBWA. Markmiðið er að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Í átta manna framkvæmdastjórn Reykjanesbæjar, sem í sitja bæjarstjóri og sviðsstjórar, er kynjaskiptingin jöfn, fjórir karlar og fjórar konur. Í ellefu manna bæjarstjórn sitja sex karlar og fimm konur.

Myglumál

Á árinu kom í ljós að ekki hefði tekist að uppræta rakaskemmdir og myglu af þeirra völdum í Myllubakkaskóla. Eftir að í ljós kom að ekki hefði tekist að komast fyrir rót vandans var ákveðið að rýma skólann og fara í víðtækar endurbætur. Þegar þetta er ritað, í lok árs 2021, liggur fyrir skýrsla frá sérfræðingum sem sýnir að verkefnið í heild sinni er umfangsmikið en stefnt er að því að hefja endurbætur strax á nýju ári í nokkrum áföngum. Starfsemin, sem tímabundið er dreifð á nokkra staði, mun því smátt og smátt flytjast aftur í skólann eftir því sem viðgerðum vindur fram.

Samvinna um Heimsmarkmiðin og hringrásarhagkerfið

Sveitarfélögin á Suðurnesjum, í samstarfi við Kadeco, Isavia og Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, héldu áfram samstarfi um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna undir verkefnaheitinu „Suðurnesjavettvangur“. Markmið verkefnisins er m.a. að Suðurnesin verði fyrirmynd annarra landshluta þegar kemur að innleiðingu heimsmarkmiðianna og hringrásarhagkerfisins í samstarfi lykilaðila svæðisins með áherslu á aukna endurvinnslu og endurnýtingu og minna kolefnisspor.

Umhverfis- og loftlagssmálin tekin fastari tökum

Á árinu 2021 samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar nýja Umhverfis- og loftlagsstefnu sem á næsta ári verðu byrjað að hrinda í framkvæmd. Nú eru unnið að gerð framkvæmdaáætlunar sem mun vísa veginn að því hvernig markmiðum nýrrar umhverfis- og loftlagsstefnu verður náð með margvíslegum aðgerðum víðs vegar í samfélaginu. Aðalmarkmiðið er að draga úr sóun og minnka kolefnisspor sveitarfélagsins og hefur verið ákveðið að með ársreikningi, sem samkvæmt sveitarstjórnarlögum á að liggja fyrir um miðjan apríl ár hvert, muni nú í fyrsta sinn fylgja svokölluð samfélagsskýrsla þar sem gerð verður grein fyrir framgangi og frammistöðu Reykjanesbæjar í ýmsum þáttum, öðrum er fjárhagslegum stærðum, er lúta að umhverfinu, samfélaginu og stjórnarháttum sveitarfélagsins.

Ný atvinnuþróunarstefna í mótun

Eins og allir vita fór atvinnuleysi á svæðinu í hæstu hæðir þegar Keflavíkurflugvöllur svo gott sem lokaði vegna heimsfaraldurs Covid-19. Þá sannaðist enn einu sinni að helstu styrkleikar geta einnig verið helstu veikleikar samfélags eins og okkar. Jafn gott og það er að hafa stóran og öflugan vinnustað eins og eitt stykki millilandaflugvöllur getur verið er það slæmt þegar starfsemin nánast stöðvast. Viðbrögð við þessu er að skapa fleiri störf í atvinnugreinum sem ekki tengjast eða eru háð flugvellinum. Í því skyni er nú unnið að mótun atvinnuþróunarstefnu fyrir Reykjanesbæ og verður hún kynnt á næsta ári.

Áframhaldandi íbúafjölgun

Á undaförnum árum hefur íbúum í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum fjölgað um rúmlega þriðjung. Svo mikil auking hefur reynt á innviði og henni hafa fylgt vaxtaverkir. Íbúar Reykjanebæjar voru 15 þúsund árið 2015 en eru nú 21 þúsund. Til þess að geta aukið fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins, og mannað flugvöllinn þegar starfsemin þar er komin á fulla ferð, þarf íbúum að fjölga hér enn frekar svo nægt vinnuafl verði til staðar fyrir margs konar aðra starfsemi í framtíðinni. Því þarf sveitarfélagið að skipuleggja ný byggingarsvæði, þétta byggð og hefja uppbyggingu m.a. á Ásbrúarsvæðinu. Slíkri uppbyggingu þarf að fylgja eftir með nýjum skólum og öðrum innviðum. Áfram verður unnið að byggingu annars áfanga Stapaskóla, sem er íþróttahús og sundlaug, á árinu og síðan hefst þriðji áfangi fyrir börn á leikskólaaldri strax í framhaldi af því. Á meðan verður unnið að stefnumörkun og hönnun nýrra skóla m.a. í Hlíðarhverfi og Ásbrú.

Fjölbreytt áhersluverkefni

Á síðustu árum hefur verið unnið jafnt og þétt að margvíslegum framkvæmdum. Má þar nefna gatnagerð í nýjum hverfum, frágang gangstétta og göngustíga í eldri hverfum, viðhald og endurbætur á Sundmiðstöðinni við Sunnubraut, nýjan gervigrasvöll vestan Reykjaneshallar og svo mætti lengi telja.

Þegar stefnumörkun Reykjanesbæjar; „Í krafti fjölbreytileikans“ tók gildi í upphafi árs 2020 voru eftirfarandi ellefu áhersluverkefni sett fram unnið skyldi unnið að 2020 og 2021.

Bæta almenningssamgöngur með skilvirkara leiðarkerfi og aukinni tíðni. Kerfið nýtist fyrir íbúa í leik og starfi. Sérstaklega verði horft til þess að kerfið nýtist ungu fólki til að efla þátttöku barna í íþróttum og auka vellíðan þeirra.

Hvatagreiðslur hækki og verði sambærilegar og hjá öðrum stærri sveitarfélögum landsins, þannig verði hvatt til aukinnar þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi barna.

Samþætta skólastarf barna í 1.–4. bekk við íþróttir og tómstundir til að auðvelda börnum og foreldrum lífið. Börnin ljúki almennt skóla-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir kl. 17:00 á daginn.

Áfram verður unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðri samvinnu við íþróttafélög.

Opna ungbarnadeildir frá átján mánaða aldri í a.m.k. tveimur leikskólum fyrir haustið 2021.

Styrkja fjölþætta heilsueflingu 65+ enn frekar til að fleiri íbúar taki þátt.

Uppbygging leiksvæða, hreystivalla, grænna svæða og göngustíga til að auka aðgengi íbúa að aðstöðu til útiveru.

Lækkun fasteignaskatta til þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á starfsumhverfi sem stenst allan samanburð.

Auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Hvatt verði til virkra samskipta milli ólíkra hópa m.a. með því að halda þjóðhátíðardag Pólverja hátíðlegan.

Öll málaleitan íbúa sem má leysa í fyrstu snertingu verði leyst í fyrstu snertingu með öflugri ferlum og aukinni rafrænni þjónustu.

Þeim ellefu markmiðum hefur nú að mestu leyti verið náð. Samhliða því var unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum á öllum sviðum sveitarfélagsins í takt við stefnuna. Nú þarf bæjarstjórn að sameinast um ný tíu til fimmtán áhersluverkefni fyrir árin 2022–2023.

Með opnum hug og gleði í hjarta

Reykjanesbær setti sér nýja menntastefnu á árinu sem ber heitið „Með opnum hug og gleði í hjarta“. Henni er ætlað að veita leiðsögn og innblástur öllum þeim sem koma að starfi með börnum og ungmennum hjá Reykjanesbæ til átján ára aldurs. Lögð er áhersla á að börn og ungmenni öðlist alhliða menntun en jafnframt að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra sem virkir þátttakendur í samfélaginu okkar. Stefnan tekur meðal annars mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Reykjanesbær hefur verið að innleiða síðustu misseri og mun þeirri vinnu ljúka á komandi ári.

Saga Keflavíkur 1949–1994

Eins og flestir vita varð Reykjanesbær til við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994. Fyrir þann tíma höfðu öll sveitarfélögin látið rita sögu sína. Njarðvík í einu bindi, Hafnir í einu bindi og Keflavík hafði lokið við ritun sögunnar til 1949 í þremur bindum. Nú er unnið að ritun fjórða og síðasta bindis af sögu Keflavíkur sem mun spanna tímabilið 1949–1994, þegar Reykjanesbær varð til. Þessi síðasti hluti verður bæði gefinn út á bók en einnig í vefformi þar sem ýmsir möguleikar á myndböndum og tilvísunum í þegar útgefið efni á margvíslegu formi verða nýttir til hins ítrasta.

Framtíðin er björt og aukin lífsgæði

Það sem hér hefur verið talið upp að framan er aðeins hluti af því sem er að gerast í Reykjanesbæ. Sterk staða sveitarfélagsins og mikill uppgangur gefur tilefni til að horfa björtum augum til nánustu framtíðar. Það er von undirritaðs að þær áætlanir og stefnur sem nú er unnið eftir nái fram að ganga með aukin lífsgæði íbúannaog betra samfélag að markmiði. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka samstarfsfólki og íbúum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og vona að okkur auðnist að finna tækifærin í sem flestum áskorunum sem okkar bíða.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ