Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Kvótastaðan á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 9. september 2022 kl. 07:21

Kvótastaðan á Suðurnesjum

Sumarið hjá íbúum Suðurnesja var nú ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Frekar kalt og blautt. Núna er september kominn í gang og hann bara byrjar ansi vel. Veðurblíða og það hefur þýtt að handfærabátarnir hafa getað sinnt ufsaveiðunum við Eldey en ansi stór floti færabáta hefur verið að þeim veiðum síðan í júni og gengið mjög vel.

Þar sem september er komin í gang þá er líka nýtt fiskveiðiári komið í gang og við skulum aðeins kíkja á kvótastöðu fyrirtækjanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Byrjum í Grindavík en þar eru stærstu fyrirtækin og mesti kvótinn.

Þorbjörn ehf. er með um 17.700 tonna kvóta og mest er á frystitogurunum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK og Tómasi Þorvaldssyni GK. Miklar breytingar hafa orðið á flota Þorbjarnar og í dag er einungis einn línubátur sem er gerður út af þeim og er það Valdimar GK.

Vísir ehf. er með um 13.260 tonna kvóta sem er á þremur línubátum; Fjölni GK, Páli Jónssyni GK og Sighvati GK auk þess á togaranum Jóhönnu Gísladóttir GK. Til viðbótar þessu þá á Vísir ehf. tvo krókamarkabáta, Daðey GK og Sævík GK, og samtals er kvótinn á þeim um 1.720 tonn, mest á Sævík GK.

Einhamar ehf., þeir eru einungis með kvóta í krókamarkinu og eru með samtals um 3.250 tonna kvóta sem deilist á þrjá línubáta, Auði Vésteins SU, Gísla Súrsson GK og Vésteins GK. Mestur kvóti er á Gísla Súrssyni GK.

Stakkavík ehf. Þeir eiga heilan helling af bátum enn allir eru þeir í krókamarkskerfinu. Þeir eru skráðir með 1.663 tonna kvóta, einungis á Óla á Stað GK og Geirfugl GK. Þeir eru reyndar líka með Katrínu GK, Gulltopp GK og Hópsnes GK.

Í Sandgerði eru nú margar fiskverkanir en engar stórútgerðir eins og í Grindavík. Margrét GK, sem er skráð í Sandgerði og í eigu Nesfisks, er með 1.409 tonna kvóta.

Nesfiskur í Garðinum er eitt af stóru fyrirtækjunum og þeir eru með samtals tæplega tólf þúsund tonna kvóta sem deilist á þrjá dragnótabáta, Benna Sæm GK, Sigga Bjarna GK og Sigurfara GK, togarana Pálínu Þórunni GK og Sóley Sigurjóns GK og síðan frystitogarann Baldvin Njálsson GK sem kom nýr til landsins í lok síðasta árs.

Þó þessi kvóti, tólf þúsund tonn, hljómi ansi stór þá er hann það í raun ekki, það verður hausverkur fyrir stjórnendur Nesfisks að stjórna þessu þannig að allir geta veitt, því að frystitogarinn Baldvin Njálsson GK ræður við að veiða allan þennan kvóta á einu ári. Sem dæmi þá er togarinn núna í ár kominn með um sex þúsund tonna afla.

Ansi margir sjómenn hafa af þessu þónokkrar áhyggjur að einhverjir bátar verði stoppaðir af.

Í Reykjanesbæ er enginn stórútgerð nema Saltver ehf. sem gerir út Erling KE en Erling KE er með 1.525 tonna kvóta.

Hólmgrímur Sigvaldason, sem gerir út þrjá netabáta, Halldór Afa GK, Maron GK og Grímsnes GK, er samtals með 433 tonna kvóta og af því er rækja um 95 tonn sem er á Grímsnesi GK. Hólmgrímur hefur reyndar verið að leigja mjög mikið af kvóta og hann ásamt Bárði SH eru stærstu sem leigja kvóta á hverju fiskveiðiári. Um 2.000 til 2.500 tonn hvor aðili.

Allar þessar tölur miðast við þorskígildi en í einstökum tegundum getur þessi tala verið mismunandi – en eitt eiga þessi fyrirtæki þó sameiginlegt að það er enginn uppsjávarfiskur í þessum tölum.