Kvenfólkið á Suðurnesjum
Það er óhætt að segja að kvenfólkið á Suðurnesjum hafi skinið skært á árinu 2020, veiruárinu mikla. Þær Sólborg Guðbrandsdóttir, tónlistarkona, áhrifavaldur og laganemi og knattspyrnukonan Sveindís Jane Jónsdóttir voru í eldlínunni, hvor á sínu sviði. Þær fengu báðar margar tilnefningar til Suðurnesjamanns ársins 2020 en að endingu var það Sólborg sem hlaut útnefninguna og er hún vel að henni komin. Sveindís kvaddi Suðurnesin í bili þegar hún fór á vit fótboltaævintýra í Svíþjóð sem atvinnumaður í greininni og á framtíðina fyrir sér, aðeins 19 ára gömul.
Sólborg kemst í ansi skemmtilegan hóp á Suðurnesjum en Víkurfréttir hafa valið Mann ársins allar götur síðan árið 1990. Þetta var í 31. skipti sem valið fer fram en sá fyrsti sem fékk þessa nafnbót var Grindvíkingurinn og útgerðarmaðurinn Dagbjartur Einarsson. Það hefur hallað á konur á þessum lista en síðasta áratuginn hefur sú þróun breyst og allt frá árinu 2012 hafa fjórar konur hlotið nafnbótina en eitt árið fékk Stopp hópurinn sem vinnur að hagsmunum Reykjanesbrautar útnefningu. Í honum voru tvær konur. Auk Sólborgar hafa þær Elenora Rós Gerogsdóttir, bakari, Fida Abu Libdeh, frumkvöðull og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, tónlistarkona fengið nafnbótina en sú síðastnefnda var valin með Brynjari Leifssyni. Þau voru og eru meðlimir hinnar heimsfrægu hljómsveitar Of Monsters and Men. Listinn yfir okkar besta fólk er glæsilegur og hægt er að sjá hann inni í blaðinu. Már Gunnarsson, sundkappi og tónlistarmaður var kjörinn í fyrra og var á leiðinni á Olympíuleika en ónefnd heims-veira stoppaði það eins og svo margt annað á árinu sem einkenndist mikið af heimsfaraldri.
Sólborg er aðeins 24 ára og var þekkt fyrir hæfileika sína í söng og tónlist áður en hún fór að láta til sín taka á allt öðrum vettvangi. Hún var í lok árs tilnefnd af menntamálaráðherra til formennsku í stýrihóp um kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum en það er mál sem hefur brunnið á henni síðustu árin. Hápunkturinn hjá henni var á síðasta ári þegar hún gaf út bókina Fávitar sem byggð er á spurningum sem ungmenni hafa sent henni um kynfræðslu og kynferðislegt ofbeldi á netinu. Því er skemmst frá að segja að bókin sló í gegn og Sólborg var nýliði ársins meðal rithöfunda. Hún fékk m.a. ungan listamann úr Keflavík til að hjálpa sér með teikningar í bókina og gaf svo út bókina sjálf án aðkomu bókaútgáfu. Bókin endaði í 11. sæti yfir mest seldu bækur landsins á síðasta ári. Hún segir í skemmtilegu viðtali í blaðinu að hún hafi alls ekki á von á þessum viðtökum en leynir því þó ekki að hún hafi átt von á því að ungmenni myndi taka bókinni vel.
Sólborg hóf nám í lögfræði fyrir stuttu síðan og vonast til að geta einbeitt sér meira að náminu eftir erilsamt ár í bókaútgáfunni. Einnig hefur hún hug á því að gera meira á tónlistarsviðinu. Við óskum henni góðs gengis með verkefnin sem bíða hennar.
Veiruárið var öðruvísi hjá flestum, meðal annars hjá okkur á Víkurfréttum. Við áttum 40 ára útgáfuafmæli og stóran hluta ársins var mikil áskorun að halda úti starfseminni. Auglýsingamarkaðurinn laskaðist mikið en undirritaður vill þakka öllum þeim sem studdu okkur í jólablaðinu en þeir voru margir. Við viljum auðvitað þakka öllum sem hafa stutt útgáfu VF með ýmsum hætti í áratugi. Með stuðningi Suðurnesjamanna, hvort sem er með kaupum á auglýsingum í okkar miðla eða annarri þjónustu okkar fer fyrirtækið nú inn í 39. starfsárið en Víkurfréttir ehf. hófu rekstur í janúar 1983 með kaupum á prentútgáfu Víkurfrétta af Prentsmiðjunni Grágás sem stofnaði blaðið í ágúst 1980. Með ykkar stuðningi höldum við áfram að gefa út blaðið, reka fréttavef og golfvef og gerð sjónvarpsþáttarins Suðurnesjamagasíns. Fyrir það viljum við þakka.
Gleðilegt ár og takk fyrir samstarfið á liðnum áratugum!
Páll Ketilsson.