Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Klifruðu upp í möstur á hvalveiðibátunum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 8. september 2023 kl. 06:00

Klifruðu upp í möstur á hvalveiðibátunum

Þá er septembermánuður komin í gang og það þýðir að nýtt fiskveiðiár, fiskveiðiárið 2023–2024, er hafið. Þeir sem fá úthlutaðan kvóta fá örlítið meira núna en fyrir ári síðan út af smávægilegri aukningu á þorskkvótanum, ýsukvótinn var aukinn töluvert og það líka skilar sér til útgerðarmanna.

Annars er ég staddur núna á Bifröst í Borgarfirðinum og hérna er ekki hægt að finna eina einustu tengingu við sjávarútveginn á Suðurnesjum við Bifröst, svo þá þýðir ekkert að spá meira í því.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ansi skrýtinn dagur því þegar þetta er skrifað tóku tvær stelpur sig til og klifruðu upp í möstur á hvalveiðibátunum tveimur sem liggja í Reykjavíkurhöfn, til þess að mótmæla hvalveiðum.

Ísland telst nú vera sjálfstæð þjóð og mikið um allskonar reglur og lög eru í landinu okkar og hvalveiðar voru leyfðar með reglugerð – en samt koma þessar tvær stelpur og virða ekki reglur og lög Íslands með að það sé búið að leyfa hvalveiðar.

Þetta er nú orðið ansi hart ef mótmælendur eiga að geta komist upp með það að mótmæla og stöðva það sem er búið að samþykkja með lögum og reglum. Hver er þá tilgangurinn eiginlega með sjálfstæði Íslendinga ef útlendingar geta flogið hingað til lands bara til þess að mótmæla lögum og reglum landsins, eins og t.d. þetta með hvalveiðarnar?

Hvalveiðarnar koma svo sem ekki mikið við sögu gagnvart Suðurnesjunum nema þó að einhverjir  hafa unnið við veiðar og vinnslu hvalveiðanna en bátarnir sigla framhjá Garðskagavita og fara djúpt þar út til veiða á hvalnum.

Myndin sem fylgir þessum pistli er einmitt tekin af einum hvalbátnum sem var að sigla út á miðin i ansi fallegri kvöldsól en faðir minn, Reynir Sveinsson, tók myndina frá Suðurgarðinum í Sandgerðishöfn – og já, hann var með ansi öfluga myndavél til þess að geta náð bátnum svona.

Nýtt fiskveiðiár, eins og að ofan segir, hafið og það þýðir ýmislegt. Til dæmis að stóru línubátarnir fara á flakk, og þá flestir norður eða austur, og það mun líka þýða ansi mikla fiskflutninga sem eiga sér stað um haustin og þá að mestu fiskur sem er fluttur til vinnslu í Grindavík.

Þetta mun líka þýða að það sem kallað er Bugtarveiðar, sem eru dragnótaveiðar inni í Faxaflóanum, mega hefjast en það eru fimm bátar á dragnót frá Sandgerði og þrír þeirra mega veiða inni í Faxaflóanum. Það eru Siggi Bjarna GK, Benni Sæm GK og Aðalbjörg RE. Maggý VE og Sigurfari GK hafa ekki leyfi til þess því leyfið miðast við báta sem eru styttri en 24 metrar. Það var klippt aðeins framan af stefninu á Sigga Bjarna GK og Benna Sæm GK svo þeir sleppi inn í þetta 24 metra viðmið en Aðalbjörg RE á aftur á móti hátt í 35 ára sögu við veiðar í Bugtinni svokölluðu.

Pínu öðruvísi pistill en vonandi mun hvalveiðibátunum ganga vel við veiðar sínar og kannski eigum við eftir að sjá þá sigla framhjá Garðskaganum eins og pabbi náði að mynda.