Kalt stríð
Þær ömurlegu aðstæður og veruleiki sem íbúar í Úkraínu búa við á þessari stundu og vöknuðu upp við fyrir rúmlega viku síðan hefur ekki farið fram hjá neinu okkar. Veruleiki sem fæst okkar þekkja sem betur fer. Brostið er á skelfilegt stríð í Evrópu þar sem öflugt hernaðarveldi ræðst á friðsama nágranna sína. Í aðstæðum sem þessum skiptir miklu máli að fólk á flótta fái öryggi og skjól, þessi hópur samanstendur mestmegnis af konum og börnum. Fleiri Evrópumenn hafa ekki verið á flótta frá því árið 1945 og ástandið því mjög alvarlegt. Við Íslendingar ætlum að axla okkar ábyrgð og nú þegar sér maður mikinn samhug og velvilja fólks út um allt samfélagið. Stjórnvöld hafa verið að auka fjárhagslegan stuðning til mannúðarmála í Úkraínu en það er einnig skylda okkar að taka vel á móti þessu fólki sem er að flýja stríðið og sækir um dvöl í okkar landi.
Frá því kalda stríðinu lauk með falli Sovétríkjanna þá höfum við á Íslandi búið við mikið öryggi og í raun lítið spáð í því, öryggi okkar hefur á þessum tíma þótt sjálfsagt. Í síðustu viku breyttist það snögglega. Lítið fer nú fyrir þeim aðilum sem kyrjuðu „Ísland úr NATO, herinn burt“ heldur hafa atburðir síðustu daga sýnt okkur mikilvægi þess að vera í NATO. Úkraína er t.d. ekki í NATO enda fær landið ekki þann stuðning sem það þyrfti.
Við Suðurnesjamenn þekkjum það vel að hafa fjölmennt varnarlið hérna á okkar slóðum og gekk sú samvera alla tíð nokkuð vel. Vera varnarliðsins hafði yfir höfuð mjög góð áhrif á okkar samfélag og það var mikill missir þegar herinn hvarf á brott árið 2006. Ekki bara efnahagslega heldur var vera varnarliðsins bara stór partur af fjölbreyttri tilveru okkar enda Reykjanesbær mikið fjölmenningarsamfélag. Núna í ljósi aðstæðna í heiminum er nokkuð ljóst að umsvif NATO á Keflavíkurflugvelli eiga eftir að aukast mikið á næstu vikum/mánuðum. Fjöldi fólks á vegum bandalagsins eiga eftir að koma hérna í skamman eða lengri tíma og nýta sér þá um leið ýmsa þjónustu hér í nærumhverfinu. Við eigum einnig að taka vel á móti öllu þessu fólki sem kemur víða að því ef til átaka kæmi eru það þessi lönd sem senda syni sína og dætur í stríð til þess að verja okkar frelsi og tilveru. NATO er varnarbandalag og við ættum að vera þakklát fyrir veru okkar í því ágæta bandalagi.
Örvar Þór Kristjánsson.