Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Jólin blessuð jólin
Mánudagur 23. desember 2019 kl. 07:44

Jólin blessuð jólin

Ég hreinlega veit ekki hvernig þetta gerðist, en það eru örfáir dagar til jóla. Aftur! Mér líður eins og einhver hjá almættinu hafi stolist í fjarstýringuna og skemmt sér konunglega í allt haust við að hraðspóla síðustu vikum ársins. Það er í alvöru ekki heilt ár liðið frá síðustu jólum.

Alltaf skulu þessi elsku blessuðu jól læðast upp að mér og allar fyrirætlanir um huggulega, rólega aðventu þar sem ég geri ekkert annað en að hafa það notalegt með öllum mínum bestu við kertaljós og jólatónlist, hafa enn eitt árið fokið út í veður og vind með síðustu trampolínum sumarsins. Það stefnir í mjög hefðbundin jól á Heiðarbrúninni. Þegar þetta er skrifað eru enn nokkrar gjafir ókeyptar, allar gjafir enn óinnpakkaðar, jólakort óskrifuð og húsið enn sem komið er með frekar lágstemmdar skreytingar, svo ég orði það nú aðeins uppbyggilega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gjafir eru þegar farnar að berast í hús til okkar frá elskulegum vinum og ættingjum sem við erum enn að velta fyrir okkur hvað við ætlum að gefa í jólagjöf. Þegar við Lubbi göngum um bæinn sé ég ekkert nema fullskreytt jólatré inni í stofu hjá fólki, sem sum hver hafa staðið þar frá því í nóvember! Þessu hef ég mikið verið að velta fyrir mér. Ég er alin upp við það að jólatréð var sett upp á Þorláksmessu þegar allt var að verða klárt fyrir jólin og húsið ilmaði af hreinlæti í bland við ilm af hangikjöti og greni. Þetta var upphafið að jólunum heima hjá mér og gerði þennan tíma alltaf svo sérstaklega einstakan. Í minningunni var þetta svona alls staðar, nema hjá Bryndísi vinkonu minni, þar sem jólatréð fór snemma upp, en það var vegna þess að fjölskylda hennar átti bókabúð og voru önnum kafinn allan jólamánuðinn í búðinni.

En hefur tréð kannski alltaf verið komið upp svona snemma hjá öllum nema minni fjölskyldu – getur það verið? Voru mamma og pabbi kannski bara alltaf í ruglinu á síðustu stundu með þetta allt saman sem skapaði þessa jólahefð hjá okkur? Jólahefð sem ég nota bene hef algjörlega tekið með mér inn í mín jól. Tja...þegar stórt er spurt!

Ég mun væntanlega ekki breyta miklu þetta árið hvað tímasetningar varðar. Það saxast á listann og jólin munu koma í allri sinni dýrð hvað sem verður eftir ógert á listanum. Eins og alltaf. Og stóra, fallega jólatréð (sem búið er að kaupa!), verður frumsýnt á Þorláksmessu. Eins og alltaf.

Njótið jólanna kæru lesendur.

Ragnheiður Elín Árnadóttir.