Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Jólaupplifun
Þriðjudagur 20. desember 2022 kl. 13:55

Jólaupplifun

Senn gengur í garð hátíð ljóss og friðar. Flestum okkar hlakkar til jólanna en það er líka hluti fólks sem fyllist kvíða og angist. Mikill kostnaður fylgir nefnilega jólunum og þó svo jólin séu alltaf dýr þá verða þau enn dýrari í ár út af ástandinu í þjóðfélaginu. Helvítis verðbólgan!

Seðlabankastjóri vill reyndar klína þessu öllu upp á tíðar ferðir landans til Tenerife og hefur eflaust ekkert til síns máls en staðreyndin er sú að verðbólga er í hæstu hæðum um þessar mundir – en þrátt fyrir að jólin séu dýr þá er alveg ljóst að þau koma nú samt með öllu fjörinu sem þeim fylgja. Eitt af því sem fylgir jólunum og færir mörgum kvíða eru gjafirnar. Blessaðar gjafirnar eru alltaf mikill hausverkur á þessum bæ því mér finnst eins og allir í kring um mig eigi nánast allt! Bækur klikka reyndar sjaldan, Engin helvítis ævisaga eftir Keflvíkinginn Sævar Sævarsson eru skyldukaup í þessu bæjarfélagi! (Þetta er spons frá Sævari, ég fæ fría áritun.) Undirritaður er reyndar alveg ferlega slappur í að velja jólagjafir og myndi eflaust gefa Gísla Marteini nagladekk ef hann væri á jólagjafalistanum. Ég er bara alls ekki með þetta og læt því yfirleitt konuna um að velja gjafirnar, meira að segja sína eigin gjöf. Það hefur meira að segja klikkað! Staðreyndin er reyndar sú að flestum okkar þyki það betra að njóta samvista með ástvinum og fjölskyldu en að fá veigamiklar jólagjafir en við vitum það öll að gjafirnar skipta líka máli. Kannski er því bara besta gjöfin upplifun eða samvistir með skemmtilegu fólki. Þekki reyndar einn ágætan mann sem gefur ávallt sínum nánustu eingöngu upplifanir í jólagjafir; gjafabréf í leikhús, út að borða eða aðra dægradvöl. Þetta finnst mér sniðugt, þarna er hægt að stjórna upphæðinni sem hentar þínum fjárhag og svona gjafabréf eftir tvö ár af lokunum og leiðindum hitta beint í mark, t.d. að gefa ömmu og afa miða á eitthvað af þessum glæsilegu þorrablótum sem verða loksins snemma á nýju ári, koma þeim út úr húsi í fjörið.

Eftir þessa Covid-tíð þá kann fólk nefnilega að meta það mun meira en áður, frelsið til að fara út og njóta afþreyingar í góðum félagsskap. Ætla sjálfur að einblína á þessar gjafir um þessi jól og hvet ykkur sem ætlið að gera það sama að horfa hingað heim þegar á að velja afþreyingu. Reykjanesbær/Suðurnesin eru nefnilega stútfull af flottum veitingastöðum og ýmis konar afþreyingu. Því eins og sagt er: „Það þarf ekki að leita langt yfir skammt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024