Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Jólaskraut um mitt sumar
Föstudagur 18. júní 2021 kl. 10:00

Jólaskraut um mitt sumar

Ég ætlaði ekki að trúa því að það væri aftur komið að mér að skrifa Lokaorð vikunnar þegar ritstjórinn hnippti í mig í gær. „Það getur bara ekki verið,“ hugsaði ég; „ég er nýbúin!“ Ég veit ekki hvort þetta sé aldurinn en það er hreint með ólíkindum hvað tíminn líður hratt. Mér finnst ég hafa verið að ganga frá jólaskrautinu í gær og það er kominn 17. júní – og áður en maður veit af verður kominn tími á aðventu­kransinn aftur. Dæs.

Það er fleira sem er ýta við mér þessa dagana, miðaldra konunni sem finnst hún samt alltaf vera frekar ung. Frumburðurinn var að útskrifast úr menntaskóla og „litla“ barnið mitt fékk bréf í póstinum í gær með upplýsingum um að fermingardagurinn sé klár. Eldri stjúpdóttirin að fara að gifta sig og sú yngri ófrísk að sínu öðru barni. Þetta getur hreinlega ekki verið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En svona er þetta nú samt. Góðu fréttirnar eru þær að fólk eldist einhvern veginn betur í dag heldur en áður. Elsta systir mín er komin á eftirlaun en hleypur reglulega upp á Esjuna og ég fæ ennþá reglulega spurninguna um það hvor okkar sé eldri. Gott fyrir hana – verra fyrir mig! Mín kynslóð hefur hins vegar aldrei verið sprækari og enginn er maður með mönnum nema hafa farið á Hnjúkinn eða tekið þátt í gönguskíða- eða hjólreiðakeppnum. Kannski eru þetta líka draumórar miðaldra konunnar og ég bið fyrri kynslóðir fyrirfram afsökunar ef ég móðga þær en mér finnst ég vera miklu yngri í dag en mér fannst t.d. foreldrar mínir vera þegar þau voru á mínum aldri. Á ákveðnum aldri fannst mér þau reyndar yfirmáta hallærisleg og það sem verra var, ég þreyttist ekki að segja þeim það. Annað hvort er ég bara svona svakalega hipp og kúl, eða synir mínir svona miklu betur gerðir en ég var, því þeir eru ótrúlega góðir við mömmu sína og leyfa mér alveg að halda það að ég sé ekkert svo hallærisleg. Þeir nenna allavega ennþá að hanga með mér, fara út að ganga eða hjóla og almennt láta sjá sig með mér. Það er eitthvað. Ég vil þó taka sérstaklega fram að ég óx sem betur fer upp úr þessu viðhorfi til foreldra minna og var hæstánægð með þau því eldri sem ég varð.

Hversu klisjukennt sem það kann að hljóma þá er lærdómurinn af þessu öllu sá að við þurfum að muna að njóta dagsins í dag. Alla ævina erum við svo upptekin við að flýta okkur á næsta stað að við gleymum því sem við höfum akkúrat í dag – og svo söknum við tímans sem liðinn er og hugsum til hans með eftirsjá. Verum þakklát fyrir hvern dag og allt okkar fólk. Ég segi fyrir mig – mikið er ég heppin kona.