Íshúsið við Seltjörn
Við Seltjörn stendur gamalt, steinsteypt hús sem byggt var 1941 af útgerðamönnum. Húsið var notað sem íshús, ísinn sem tekinn var úr Seltjörn var notaður til kælingar á fiski í farskipum, skipum sem sigldu með fisk erlendis á stríðsárunum.
Seltjörn er nokkuð stór tjörn í sigdæld sunnan við Kvíguvogastapa ekki langt frá Stapanum, vegamótum Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar.
Segja má að Seltjörn sé falin náttúruperla þó svo að hún liggi þarna fyrir allra augum sem leið eiga um Grindavíkurveg. Búið er að leggja göngustíg umhverfis tjörnina svo gönguþyrstir geti svalað þorsta sínum.
Rétt norðan við tjörnina er Sólbrekkuskógur sem er lítill, skjólsæll í fallegum brekkum með góðum göngustígum. Þar má einnig finna rjóður með bekkjum, borðum og einnig grill.