Í ökkla eða eyra
Enn og aftur voru það ungmenni af Suðurnesjunum sem sköruðu fram úr í hinni árlegu keppni milli grunnskóla landsins í Skólahreysti. Heiðarskóli sigraði og Holtaskóli hlaut svo annað sætið sem er stórglæsilegur árangur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skólar af Suðurnesjunum standa sig vel í þessari keppni og í raun hefur árangur skólanna hérna fyrir sunnan vakið verðskuldaða athygli. Þetta er gjörsamlega frábært og eitthvað sem við getum verið afar stolt af.
Þrátt fyrir þessar jákvæðu fréttir er staðreyndin samt sú að tíunda hvert barn í grunnskólum landsins þjáist af offitu. Hlutfallið í Reykjanesbæ er yfir meðaltali skv. nýjustu tölum frá heilsuvernd skólabarna. Offita er nokkuð algengari hjá börnum utan höfuðborgarsvæðisins og hafa ákveðnir þættir áhrif eins og t.d. verra aðgengi að ferskvöru, minna úrval af hreyfingu fyrir börnin, lægra menntunarstig og meiri fátækt. Þetta eru afar slæm tíðindi og ástandið er mun verra hjá drengjum einhverra hluta vegna.
Brottfall úr framhaldsskólum á Íslandi er svo það mesta sem gerist á Norðurlöndunum en mun líklegra er að drengir flosni úr námi en stúlkur. Ungum karlmönnum í hópi öryrkja hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum en flestir þessara karlmanna eru metnir sem öryrkjar vegna geðraskana. Hverjir eru áhrifaþættirnir? Skortur á hreyfingu og heilbrigðu líferni? Úrelt grunnskólakerfi sem hentar engan veginn árið 2023? A.m.k. verðum við að fara að grípa í taumana og bregðast við með einhverjum aðgerðum. Eitt getum við í Reykjanesbæ gert strax, það er að standa undir nafni sem íþróttabær og setja í gang eitt allsherjar átak til þess að laða fleiri börn í íþróttastarfið okkar. Byrja á grunninum, fjárfesta mun meira í ungviðinu. Stefnan okkar og breytingar á grunnskólakerfinu eru svo mun stærri umræða sem við sem þjóð verðum að fara að tækla í eitt skipti fyrir öll!
Að mínu mati getum við gert miklu betur í að laða krakka að íþróttastarfi og halda þeim þar lengur. Rannsóknir sýna að virk þátttaka í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi skilar miklum árangri í forvarnarstarfi til að bæta andlega og líkamlega heilsu barna. Ekki veitir af.