Hvernig var hér suður með sjó árið 1872?
Skólinn í Vatnsleysustrandarhreppi, sem nú er Sveitarfélagið Vogar, er þriðji elsti barnaskóli landsins, hefur starfað samfellt í 150 ár, frá 1872, alla tíð í eigin húsnæði og stundum á tveimur stöðum samtímis. Í Reykjavík reis skóli aðeins áratug fyrr, í leiguhúsnæði.
150 ár eru u.þ.b. sex kynslóðir. Hugsanlega hefur langalangalangafi eða -amma lesendans verið meðal fyrstu nemenda skólans!
Það var öðruvísi um að lítast hér fyrir 150 árum, aðrir lífshættir og ólíkar aðstæður. Hér var þéttbýlt á þess tíma mælikvarða, byggð með mestallri ströndinni frá Hvassahrauni að Vatnsnesi við Keflavík, ef Njarðvíkur eru taldar með. Hér var mikil árabátaútgerð vegna nálægðar við góð fiskimið og einnig gerð út þilskip (skútur) að sumarlagi á fjarlægari mið. Á útmánuðum flykktist vertíðarfólk hingað svo fólksfjöldinn gat tvöfaldast. Þjappað var í híbýlin og einnig búið í verbúðum.
Farið var að byggja vegleg hús hér í sveit á þessum tíma. Þá þóttu steinlímd hús flottari en torfhús. Síðari hluta átjándu aldar og þá nítjándu stóðu Danir fyrir byggingu steinlímdra húsa, fyrst Viðeyjarstofu 1755, síðan Hóladómkirkju, Bessastaðastofu, Nesstofu, Stjórnarráðshúsið, Viðeyjarkirkju, Landakirkju, Bessastaðakirkju og dómkirkjuna í Reykjavík, allt laust fyrir 1800.
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var byggt 1871. Sama ár byggir Sverrir Runólfsson, fyrsti lærði íslenski steinsmiðurinn, steinhús í Stóru-Vogum, líklega fyrsta steinhúsið í einkaeigu, sjá nánar á ferlir.is (https://ferlir.is/elsta-steinhus-a-islandi/). Rúst þess stendur enn á lóð Stóru-Vogaskóla, börnum að leik, sjá mynd. Síðan voru byggð hér fleiri minni steinhús, m.a. útihús.
Timburhús voru unnvörpum byggð hér þegar mikið framboð varð af góðu timbri úr strandi seglskipsins Jamestown í Höfnum árið1881 en það var fulllestað gæðatimbri. Í kjölfarið reis stærsta sveitakirkja landsins á Kálfatjörn 1893.
Margt breytist á 150 árum. Skólinn okkar var stofnaður tveimur árum áður en kóngurinn kom hingað með stjórnarskrá (sem við notum enn að nokkru leyti). Þarna eru líka harðindaár þegar margt fólk flúði land til Vesturheims, til að freista gæfunnar þar, þó líklega ekki margir úr okkar sveit.
Þó tíðarfar og afli væri misjafn á 19. öld efldist efnahagur og íbúum fjölgaði. Þar réð miklu að margir bændur eignuðust jarðir sem áður höfðu verið eign kirkjunnar og Viðeyjarklausturs og síðar konungs, svonefnt Viðeyjargóss. En efnahagur var afar misjafn og kann sú misskipting að hafa verið hvati þess að séra Stefán Thorarensen drífur í því að stofna hér skóla fyrir alla – en ekki síst þá sem minna máttu sín.
Þorvaldur Thoroddsen, náttúrufræðingur (1855–1921), sem fór rannsóknarferðir um allt land, fór hér um 1884 og lýsir byggðinni þannig:
„Hverfi eða þorp eru hér alls staðar fram með sjónum og mjög mannmargt, enda er hér einhver hin mestu fiskiver á Íslandi. Bændur voru og margir efnaðir og byggingar hvergi jafngóðar á Íslandi: svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin, þó voru gamaldags kofar innan um á stöku stað. Þó nú útvegsbændur væru margir ágætlega vel efnaðir, þá var þó mikill fjöldi af blásnauðu fólki innan um og meiri munur á efnahag manna en víða annars staðar.“