Hvatningin: Lesum, spilum og umfram allt tölum saman!
Göngum fram sem góðar fyrirmyndir. Tileinkum okkur að koma auga á litlu hlutina í kringum okkur og njóta einfaldleikans sem þeim gjarnan fylgja. Því margt smátt gerir eitt stórt. Aðventan og undirbúningur jólanna á að vera notalegur tími með fjölskylduna í fyrirrúmi sem oft getur verið flókið í nútíma samfélagi. Utanaðkomandi áreiti eru mikil á þessum tíma og margt sem glepur. Þá reynir á okkur að forgangsraða og koma auga á það sem í raun skiptir máli. Með yfirvegun og staðfestu náum við öllu jöfnu að greina kjarnann frá hisminu og átta okkur á hvað mikið er nóg. Það eitt að njóta samveru og samræðu með þeim sem eru okkur kærir, gleður og nærir hjarta og sál. Árétta því enn og aftur: Lesum, spilum og umfram allt tölum saman. Megi samræðulistin lifa, þar sem orðaforða og málskilningi er gert hátt undir höfði.
Með kærleikskveðju,
Karen Valdimarsdóttir
leikskólastýra, Gimli,
Reykjanesbæ.