Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Hvað eru bátar frá Suðurnesjum að elta í Vík í Mýrdal?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 27. ágúst 2021 kl. 07:51

Hvað eru bátar frá Suðurnesjum að elta í Vík í Mýrdal?

Þessir pistlar mínir hafa verið skrifaðir víða um landið og yfirleitt reyni ég að finna tengingu við Suðurnesin varðandi þá staði sem ég er staddur á hverju sinni. Núna þegar ég skrifa þessi orð er ég staddur á Vík í Mýrdal. Og kemur örugglega strax í hugann hjá lesendum að það sé nú ekki mikil tenging við Vík í Mýrdal og Suðurnesin gagnvart sjávarútvegi, því að á Vík er enginn höfn.

Jú það er reyndar rétt að það er enginn höfn á Vík í Mýrdal, en engu að síður er nú hægt að finna ansi miklar tengingar við þetta svæði.  Utan við Vík eru nefnilega ansi góð fiskimið og margir bátar frá Suðurnesjunum hafa verið á veiðum utan við Vík og þá aðallega netabátar að eltast við ufsann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar ég sjálfur fór fyrst á netaveiðar með þeim mikla netakóngi, Grétari Mar á bátnum Bergi Vigfúsi GK, þá fórum við frá Sandgerði og alla leið á miðin utan við Vík í Mýrdal til þess að eltast við ufsann.   

Undanfarin ár hefur netabáturinn Grímsnes GK verið þar á ufsaveiðum, í fyrra var líka Langanes GK á veiðum á þeim slóðum. Dragnótabátar frá Sandgerði hafa af og til farið á veiðar utan við Vík og gengið nokkuð vel. Grímsnes GK hefur landað núna alls 159 tonnum í 8 róðrum og af því er ufsi 145 tonn, ansi góð byrjun hjá honum. 

Þá má geta þess að um haustið 2020 landaði Grímsnes GK um 800 tonnum í heildina og var ufsi af því um 700 tonn.  Enn sem komið er þá er Grímsnes GK eini netabáturinn á landinu sem er að eltast við ufsann, en þeir voru þrír í fyrra.  Auk þeirra tveggja sem áður eru nefndir kom Friðrik Sigurðsson ÁR líka á ufsann. Verður fróðlegt að sjá núna í haust hversu margir netabátar munu bætast í hópinn í ufsaveiðum á netunum.

Af hinum netabátunum er Maron GK með 46 tn. í 15 róðrum,  Halldór Afi GK var með 26 tn. í 20, Langanes GK 24 tn. í 12 og Bergvík GK var með 26 tn. í 10. 

Lítum aðeins á dragnótabátana en þeir eru aðeins að koma sér af stað, Sigurfari GK var með 78 tn. í 6 túrum,  Benni Sæm GK 53 tn. í 7, Siggi Bjarna GK 42 tn. í 7 róðrum og síðan tveir til viðbótar sem hafa hafið veiðar og landa í Sandgerði.  Þetta eru Aðalbjörg RE  sem hefur landað 12 tn. í 2 túrum  og Maggý VE sem hefur landað 10 tonn í einum túr. Skipstjórinn á Maggý VE komst á blað í síðasta pistli en þar er Karl Ólafsson skipstjóri, og hann þekkir svæðið utan við Sandgerði gríðarlega vel enda kominn með áratuga reynslu í skipstjórn á dragnótabátum þarna á svæðinu.

Nú eru stóru allir línubátarnir komnir á veiðar og fóru bátarnir sem Vísir ehf. á út fyrir helgi og fóru þau öll á miðin við Vestfirði og Norðurlandið og það mun þýða að fiskflutningar munu byrja á fullu þegar þau koma til löndunar.  Reyndar eru tveir bátar frá Þorbirni búnir að landa, Hrafn GK kom með 65 tn. til Siglufjarðar og Valdimar GK kom með 61 tonn í heimahöfn sína Grindavík.  Ánægjulegt að sjá að bátarnir eru að landa í sinni heimahöfn, því núna er staðan þannig að enginn línubátur er á veiðum við Suðurnes og reyndar er bara einn línubátur á veiðum utan við Krýsuvíkurberg og er það Jón Ásbjörnsson RE sem hefur landað 48 tonnum í 10 túrum í Þorlákshöfn.  Sem er reyndar nokkuð góður afli, sérstaklega þegar miðað er við það að það kostar nokkuð mikið að aka fiskinum suður og t.d er Dóri GK kominn með 50 tonn í 11 róðrum,  Óli á Stað GK var með 51 tn. í 11 og Hulda GK var er með 56 tn. í  róðrum.

Ísfiskstogarar Nesfisks hafa í sumar verið á rækjuveiðum og hafa veiðarnar gengið mjög vel.  Sóley Sigurjóns GK er komin með yfir 600 tonn af rækju síðan togarinn hóf veiðar í maí.  Berglín GK er með nokkuð minni afla eða aðeins um tæp 200 tonn. Öllum aflanum er landað á Siglufirði og  aflanum svo til skipt niður á þrjá staði.  Rækjunni er ekið til Hvammstanga, bolfiski, þorski, ýsu og ufsa er ekið til Suðurnesja, restin er seld á Fiskmarkaði Siglufjarðar.