Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Hressandi skjálftar
Laugardagur 6. mars 2021 kl. 06:41

Hressandi skjálftar

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að hérna á Reykjanesskaga nötrar allt og skelfur þessa dagana (ekki bara þegar greinarhöfundur fer á brettið í ræktinni heldur vegna óvenjulega mikilla náttúrulegra jarðhræringa). Jarðskjálftahrina sú er núna gengur yfir er afar öflug og hefur ekki sést áður á okkar lífsleið enda fátt annað en skjálftarnir sem komast að hjá fólki og fjölmiðlunum þessa dagana. Reyndar eru sumir búnir að setja status á Facebook áður en skjálftinn ríður yfir slíkur er áhuginn! Persónulega tek ég því reyndar fagnandi að mest lesna fréttin sé ekki lengur uppfærðar Covid-tölur dagsins heldur stærð nýjasta skjálftans og ófarir Liverpool eru ekki jafn áberandi. Ákveðnir fjölmiðlar hafa reyndar mestar áhyggjur þegar að fólk á höfuðborgarsvæðinu verður vart við skjálftana en þeir virðast sterkari þar en í Grindavík sem þó situr nánast ofan á upptökum skjálftanna. Þrátt fyrir að um ákveðnar náttúruhamfarir sé að ræða þá skynja ég það almennt að fólk tekur þessu bara ansi vel hérna á svæðinu enda síðastliðið ár verið undirlagt þessari ógeðisveiru og öllu hinu neikvæða henni tengt. Það er því bara nokkuð hressandi að finna smá hristing reglulega og það er mun skemmtilegra umræðuefni svo lengi sem að móðir náttúra fari nú ekki að setja einhvern auka kraft í þetta allt saman sem myndi valda einhverju tjóni af ráði. Tala nú ekki um ef það fer að gjósa!

Sumir eru spenntir fyrir „túristagosi“ en ég vonast innilega til þess að þessi umtalaða kvika haldi sig bara hjá kölska eða finni sér leið upp mun lengra frá byggð og vatnsbólum okkar. Reyndar mætti svo henda hugmyndum um gerð nýs flugvallar í Hvassahrauni ofan í ruslið og jarða þá vitleysu endanlega. Rögnunefndin sást a.m.k. á Klausturbarnum í vikunni að drekkja sorgum sínum enda ærin ástæða til. Auðvitað styttist svo í að þetta jarðhræringaástand verði orðið afar pirrandi þó sérstaklega hjá vinum mínum í Grindavík sem þó kalla ekki allt ömmu sína. Væri ekki bara best að það kæmi einn hressandi skjálfti (segjum bara um M6 ) sem myndi ekki valda neinu tjóni af ráði og svo væri þetta bara komið í pásu? Framhaldið er óráðið en þegar þessi orð eru rituð þá hafa ekki nema nokkrir „tittir“ dottið í hús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hámenntuðu jarðskálftafræðingarnir okkar virðast þó alveg hjartanlega sammála um að annaðhvort muni skjálftunum fjölga eða þá hugsanlega fækka, þá segja þeir að það fari jafnvel að gjósa eða bara alls ekki. Það er ágætt að vita það.