Hliðin að opnast
Lokaorð Örvars Þ. Kristjánssonar
Þetta hafa verið afar þungar vikur að undanförnu. Hver stormurinn á fætur öðrum hefur dunið á okkur og annar hver maður verið í Covid-19- einangrun með tilheyrandi leiðindum og lömun samfélagsins. Fyrir utan Verbúðina þá hefur í raun fátt kætt okkur þessa fyrstu ísköldu mánuði ársins. Daginn er samt tekið að lengja og það styttist óðfluga í sumarið og betri tíð. Nú er heldur betur ástæða til þess að láta sig hlakka til enda hefur heilbrigðisráðherra okkar gefið það út að öllum Covid-19-takmörkunum verði aflétt fyrir lok febrúar! Bestu fréttir sem við höfum fengið í háa herrans tíð og þótt fyrr hefði verið segja margir. Með hækkandi sól þá styttist einnig í úrslitakeppnina í körfuboltanum og baráttan í deildunum hefur sjaldan eða aldrei verið jafn hörð og spennandi. Reykjanesbær er vagga körfuboltans á Íslandi og að venju eru okkar lið að standa sig vel á öllum vígstöðvum. Nú þegar hliðin eru að opnast þá vil ég eindregið hvetja fólk til þess að fjölmenna á leiki félaganna. Það hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikilvægt og núna. Leikmenn hafa síðustu tvö árin spilað á löngum köflum fyrir nánast tómum húsum sem hefur verið alveg óhemju erfitt og í raun bara drepleiðinlegt. Að horfa á nágrannaslag milli Njarðvíkur og Keflavíkur fyrir tómu húsi er bara ekki rétt, stemmningin og lætin er það sem leikmenn og áhorfendur þrífast á. Við stuðningsmenn höfum þurft að þjást líka enda horft á langflesta leikina í sófanum heima og því miður þá virðist erfitt að draga suma þaðan en ég fullyrði að það er ekkert eins og að mæta á pallana. Nú veit ég að forsvarsmenn félaganna eru að dusta af grillunum og ætla að bjóða upp á alvöru skemmtun næstu vikurnar og mánuði. Fjölmennum á leikina og verum eins og beljurnar sem er verið að sleppa út á vorin! Fögnum frelsinu og styðjum þétt við bakið á okkar félögum, oft var þörf en nú er nauðsyn. Góða skemmtun!