Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Hamfarir og græjur
Fimmtudagur 9. febrúar 2023 kl. 09:02

Hamfarir og græjur

Lokaorð Ragnheiðar Elínar

Í morgun átti ég fund með sendiherra Tyrklands gagnvart OECD, löngu ákveðinn fund til að fara yfir ýmis mál sem við erum að vinna saman að enda Tyrkland aðildarríki að OECD Development Centre sem ég stýri. Allt sem við ætluðum að ræða og virtist mjög mikilvægt í gær var það ekki lengur í dag. Hræðilegar fréttir af jarðskjálftum í Tyrklandi og Sýrlandi þar sem þúsundir hafa látist yfirskyggðu allt og rifjuðu upp minningar hjá sendiherranum um stóra skjálftann í Istanbúl 1999 þar sem 12.000 manns létust. Hann var þá búsettur í Istanbúl og gleymir aldrei þeim 45 endalausu sekúndum sem skjálftinn varði og hann gat sig ekki hreyft til þess að gæta að dóttur sinni í barnaherberginu. Sem betur fer fór það vel fyrir hann og fjölskyldu hans en skelfingin, eyðileggingin og manntjónið líður honum aldrei úr minni.

Við Íslendingar þekkjum jarðskjálfta og aðrar náttúruhamfarir vel, stundum einum of vel. Nýverið var þess til að mynda minnst að half öld var liðin frá Vestmannaeyjagosinu og 40 ár frá mannskæðum krapaflóðum á Patreksfirði. Í svona áföllum sýnir íslenska þjóðin úr hverju hún er gerð og stendur saman, allir leggjast á eitt. Við höfum líka lært af reynslunni, viðbragðsteymi og viðbragðsáætlanir eru klárar, lögreglan, Gæslan og björgunarsveitirnar ómetanlegu mættar á undraverðum hraða með allan tiltækan búnað og græjur til að bregðast við. Við sjáum það sama þegar ofsaveður geysa, líka kannski aðeins of oft þessa dagana, allir leggjast á eitt við að koma fólki í var og bjarga því sem bjargað verður. Rífast svo kannski aðeins og nöldra yfir vegalokunum og afbókunum í flugi – en yfirleitt bara eftir að veðrinu slotar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir fundinn minn með tyrkneska sendiherranum var ég ánægð að lesa það á vefmiðlunum að íslensk viðbragðssveit með björgunarsveitarmönnum, lækni og verkfræðingi væri á leið til Tyrklands til þess að sinna aðgerðum vegna jarðskjálftanna. Margt smátt gerir eitt stórt og ég veit að það mun muna um hvern mann við þetta gríðarlega verkefni.

Það vakti líka athygli mína að til þess að koma teyminu hratt og örugglega á svæðið var það sent með TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið. En ekki hvað? Þessi gríðarlega mikilvæga vél sem einhverjum snillingnum datt í hug að setja á sölu eins og hvern annan lítið notaðan bíl, er nefnilega tæki sem þarf að vera til staðar þegar óvæntir og stundum hræðilegir atburðir gerast. Núna vildi það til að sá atburður gerðist í útlöndum en eins og dæmin sanna höfum við líka mikla reynslu af náttúruhamförum. Við til dæmis vitum að þær eiga það nefnilega sammerkt að það er ekki hægt að tímasetja þær. Og þá er gott að eiga allar græjur. Jafnvel flugvél sem til allrar hamingju þarf ekki að nota mikið.

(Að lokum má ég til með að benda Njarðvíkingum á að auðvitað átti fundurinn með sendiherranum sér stað í París, þar sem ég bý (24).)