Hádegismóri er vaknaður
Nú er ljóst að tólf frambjóðendur munu bjóða sig fram til forseta Íslands. Allt ágætisfólk með margs konar hæfileika og mismunandi bakgrunn. Við fengum að kynnast þeim lítillega í fyrsta umræðuþætti kosningabaráttunnar síðastliðið föstudagskvöld. Einn frambjóðandinn vísaði til að ein forsenda framboðs hans væri að það væru of mikil leiðindi í hinni opinberu umræðu, því vildi hann meðal annars breyta. Ég er sammála honum, þó óvíst sé hvort ég muni kjósa viðkomandi.
Kosningarvélarnar hafa verið ræstar og velflestar virðast enn sem komið er halda sig innan siðferðislegra marka. Kynna kosti síns frambjóðanda og hvers má vænta verði viðkomandi kosinn. En kosningamaskína hins ímyndaða valds virðist þó hafa valið að fara hina leiðina. Hádegismóri er vaknaður undir styrkri stjórn sjálfupphafins siðfræðings, sem sér fátt bitastæðara í tilverunni en að níða sem flesta niður og sá fræjum efasemda um hvern þann frambjóðanda sem siðfræðingum hugnast ekki. Hann hefur valið leiðindin, þegar að fram getur farið lýðræðishátíð.
Það er því miður ekki Hádegismóri einn sem valið hefur leið leiðindanna. Það hafa einnig fjölmargir valið að gera á síðum samskiptamiðlanna. Vogi einhver sér að lýsa yfir stuðningi við frambjóðanda sem ekki er að skapi þess sem les, finnst sumum fátt sjálfsagðara en að láta viðkomandi heyra það og grípa til „hárblásarans“. Stóru orðin ekki spöruð og viðkomandi úthúðað, bara vegna þess að viðkomandi lætur í ljós skoðun.
Kosningarrétturinn er einn mikilvægasti réttur okkar í lýðræðissamfélagi. Við getum valið hvort við deilum stuðningi við einstaka framjóðendur eða hvort við höldum því fyrir okkur hvern við kjósum. Okkar skoðun, stuðningur eða atkvæði er þó ekki rétthærra eða betra en hvers annars sem deilir ekki þeirri skoðun sem við viljum hafa. Við skulum virða hvað aðrir vilja gera. Leyfum þessari kosningabaráttu fara fram á forsendum virðingar fyrir skoðunum annarra. Verum besta útgáfan af okkur sjálfum. Látum Hádegismóra sofa.