Grímulaus tilvera
Það eru fáir tölvupóstar sem hafa glatt mig meira í seinni tíð en sá sem ég fékk frá aðalframkvæmdastjóra OECD í síðustu viku um að frá og með 14. mars yrði grímuskyldu og öllum takmörkunum aflétt hjá stofnuninni. Í samræmi við tilslakanir franskra stjórnvalda mega nú allir koma til vinnu án fjöldatakmarkana og án þess að þurfa að skrá sig sérstaklega, mötuneytið er opið, vinnupartý leyfð aftur og lífið vonandi almennt að færast í eðlilegt horf.
Þetta eru stórfréttir sem krefjast munu talsverðrar aðlögunar, aðlögunar að venjulegu lífi. Ég hef unnið hjá OECD í sjö mánuði, umgengist mikið til sama fólkið allan þennan tíma en aldrei séð það grímulaust. Ég sá andlitið á öryggisvörðunum sem hafa tékkað bólusetningarvottorðið mitt á hverjum degi í sjö mánuði í fyrsta sinn í dag. Ég hef spjallað við þá nánast daglega, þeir hafa séð framan í mig þar sem þeir þurfa að tékka hvort andlitið á aðgangskortinu mínu passi ekki örugglega við mitt, en ég hef aldrei séð framan í þá og þekki þá ekki án grímu. Ég óttast að verða álitin mjög merkileg með mig þegar ég mæti fólki á göngunum og þekki það ekki í sjón, því það mun gerast. Ég held nefnilega að ég glími við einhverja persónuleikatakmörkun, því það tók mig fleiri mánuði að þekkja fólk (mína nánustu meðtalda) með grímu í upphafi Covid. Og nú þarf ég að læra að þekkja fólk upp á nýtt sem hefur verið með grímu frá því að ég kynntist því!
Og það eru ekki bara vinnufélagarnir. Það eru allir sem ég hef kynnst og umgengist frá því að við fluttum hingað til Parísar – afgreiðslufólkið í bakaríinu, uppáhaldsþjónninn minn á hverfisveitingastaðnum, starfsmaðurinn í hreinsuninni, blómabúðinni, apótekinu og allir kennarar sonar míns. Þetta verður eitthvað.
En þetta eru dásamlegar fréttir og nú krossar maður fingur að það verði ekki eitthvað nýtt afbrigði til sem skemmi þessa þróun. Ég hef hingað til sjálf sloppið við Covid (7, 9, 13...!), kemst örugglega í heimsfréttirnar þegar þar að kemur sem „konan sem var síðust allra til að veikjast af Covid!“. Veiran hefur skotið sér niður hjá öllu mínu heimilisfólki, nú síðast þegar eiginmaðurinn var svo almennilegur að bera hana alveg óumbeðinn með sér frá Íslandi og lagði yngri soninn með sér. En ég slapp enn og aftur…enn sem komið er.
Grímulaus tilvera hljómar ótrúlega vel – ég hlakka til að kynnast fólki alveg upp á nýtt!