Gömlu dagana gefðu mér
Mikið hefur verið rætt um virðingu Alþingis undafarin ár. Þegar á móti blæs bíða þingmenn í röðum eftir að tjá sig um það mál í ræðustól Alþingis. Finnst að störf þeirra eigi betra skilið og ég held að ég geti verið sammála því. Þó ég hafi hafi ekki nema mjög litla hugmynd um hver störf þeirra eru. Veit ekki margt annað en að þeir koma annað slagið ræðustól og skammast hver í öðrum í hálftómum þingsal, þar sem flestir eru vafrandi á netinu eða dottandi undir ræðunum. En eitthvað hljóta þeir vera gera þess á milli.
Í meginatriðum virðast störf alþingismanna vera mjög leyndardómsfull. Allavega er lítið af þeim að frétta. Nokkrir þingmenn virðast þó ekki haldnir þeim svefndrunga sem fylgir leyndarhyggjunni og gera reglulega góða grein fyrir störfum sínum og afstöðu til einstakra mála með greinarskrifum eða fésbókarfærslum. Aðrir telja starf sitt felast í að baka vöfflur og dunda við allskonar kökuskreytingar. Finnst það bara best að halda áfram í sama gír, og gera helst ekki neitt.
Við höfum síðasta árið nánast daglega fengið að fylgjast með allskonar undarlegum uppákomum sem tengjast störfum Alþingis, salan á Íslandsbanka, skýrslan um fiskeldi í sjó og nú síðast svonefnd Lindarhvolsskýrlsa sem ekki má heita skýrsla, heldur greinargerð. Greinargerð sem alls ekki má birta, hvers vegna veit enginn, en þannig er það. Þar virðast þingmenn skiptst í tvo hópa. Þeir sem hafa skoðun, og þeir sem bara dingla með. Ekkert framantaldar mála hefur orðið til þess að auka virðingu fyrir störfum Alþingis.
Í dag er gervigreindin komin til sögunnar. Tölvur vinna allskonar skemmtileg störf sem létta okkur lífið eftir fyrirfram gefnum forsendum. Gætu störf og árangur þingsins orðið betri ef við létum gervigreindina taka yfir þar. Forritum upp á nýtt störf Alþingis, gögnin eru til staðar, bara að fá góða siðfræðinga til að setja þau inn, með almannahagsmuni að leiðarljósi. Það er ljóst að þingmenn ná ekki að „sínka“ saman um hverjir eru hagsmunir almennings, svo greinilega er þörf á breytingum. Sparnaðinn sem næðist fram mætti nýta í allskonar skynsamlega hluti í sem setið hafa á hakanum á meðan þingmenn hafa verið uppteknir við eilífðarrifrildið.
Fyrir mörgum áratugum síðan söng einn vinsælasti söngvari þjóðarinnar Vilhjálmur Vilhjálmsson frá Höfnum fallegt lag við texta Ómars Ragnarssonar „Gömlu dagana gefðu mér“.
Þetta var við upphaf þeirrar tölvualdar sem nú er og augum beint að árinu 2012, sem er jú löngu liðið. Textinn fjallar um tímann og hvernig við verjum honum. Svipað og nú þegar við ráðum ekki við hraðann. Fólk fer í kulnun og verður að láta undan sökum þeirra krafna sem lagðar eru á hvern og einn. Kafli úr þessu lagi i situr í mér þegar ég hugsa til þeirra starfa og viðhorfa sem fram koma í störfum alþingismanna okkar þessa dagana.
„Þingmennirnir okkar voru ei með fulle femm, og forsætisráðherrann var gamall IBM”.
Því miður þá hafa störf þingsins og þingmanna okkar á undanförnum mánuðum ekki verið til þess að auka virðingu mína fyrir þeim störfum sem þar eru unnin. Og til að gæta fullrar sanngirni þá er ég ekki að tala um störf minnihlutans. Þingmenn þess meirihluta sem nú situr virðast hafa gleymt því hvers vegna þeir starfa á Alþingi. Þó framtíðarsýn textans sem nefndur var hér á undan sé kannski ekki akkúrat sú framtíð sem ég vildi sjá, virðist fátt annað í stöðunni en fara þá leið sem þar er sungið um. Í stað gamallar IBM tölvu mætti nota litla Lenova fartölvu, sem mín vegna mætti vera stjórnað frá Brussel. Árangurinn gæti ekki orðið verri. Gömlu dagana gefðu mér.