Góður mánuður hjá netabátunum
Þegar þessi pistill kemur þá er marsmánuður alveg að verða búinn. Eins og vanalega þegar marsmánuður er í gangi þá hefur veiðin verið góð, nema að vegna hversu lítið er eftir af kvótanum, hefur þurft að stýra veiðum bátanna á þann hátt, til að treina kvótann í það minnsta fram á sumar.
Netabátarnir hafa átt ansi góðan mánuð og stóru netabátarnir tveir, Erling KE og Grímsnes GK hafa svo til verið á sömu slóðum að veiða og gengið ansi vel. Reyndar núna undir lokin þá voru báðir bátarnir komnir með netin sín á slóðir sem þeir hafa vanalega ekki verið á. Báðir bátarnir fóru áleiðis til Reykjavíkur og voru með netin rétt utan við Kollafjörð og Kjalarnes, og líka inni í Hvalfirði utan við Grundartanga.
Erling KE er kominn með 313 tonn í sautján róðrum og mest 40 tonn í einni löndun og Grímsnes GK með 150 tonn í tuttugu og einum róðri, mest 16 tonn. Hann rær reyndar með færri trossur en Erling KE.
Maron GK var með 92 tonn í nítján róðrum en hann hefur verið með netin utan við Garðinn og líka við Straumsvík. Halldór Afi GK var með 34 tonn í ellefu róðrum, hann hefur verið utan við Vogastapa og utan við Keflavík með netin. Hraunsvík GK var með 1,8 tonn í einum róðri, landað í Grindavík.
Aðeins meira varðandi netin því Addi Afi GK, hefur hafið veiðar á grásleppu utan við Sandgerði en báturinn var með fyrstu bátum á landinu til þess að hefja veiðar á grásleppu. Addi Afi GK hefur landað 7,9 tonnum í þremur róðrum og mest 3,2 tonnum. Af þessum tonnum er grásleppa 3,3 tonn og þorskur 4,6 tonn.
Hjá dragnótabátunum hefur veiðin verið mjög góð. Sigurfari GK var með 187 tonn í þrettán róðrum. Benni Sæm GK með 162 tonn í tólf. Maggý VE með 137 tonn í tólf. Aðalbjörg RE með 69 tonn í ellefu róðrum og Siggi Bjarna GK sem hafði verið stopp svo til allan mars útaf sviptingu á veiðileyfi, hóf róðra núna fyrir stuttu síðan og hefur landað 46 tonnum í aðeins tveimur róðrum.
Talandi um dragnótaveiðar að þá eru bátarnir sem núna eru á dragnót, allir að veiða á svæði frá Hvalsneskirkju áleiðis að Reykjanesvita. Undir Hafnarbergi er þekkt dragnótasvæði sem kallast Hafnarleir en það er eiginlega ansi ótrúlegt því að veiðar báta með dragnót hafa verið þarna á Hafnarleir eiginlega jafn lengi og byrjað var að veiða með dragnót, eða hátt í 60 ár .
Ef ég fer aðeins til baka með ykkur aftur í marsmánuð árið 1995 og við lítum aðeins á dragnótabátanna sem voru á veiðum á þessu svæði, voru alls sautján bátar sem lönduðu í Grindavík og Sandgerði og af þeim voru fjórtán bátar sem lönduðu í Sandgerði og þrír sem lönduðu í Grindavík.
Þetta eru þá bátar sem voru á dragnótaveiðum. Af þessum sautján bátum voru ellefu bátar sem voru með yfir 100 tonna afla, hafa ber í huga að þarna voru bátarnir mun minni en í dag.
Ef við lítum á nokkur nöfn þá er var Sandafell HF aflahæstur með 178 tonn í tuttugu róðrum. Benni Sæm GK var með 161 tonn í tíu róðrum. Arnar KE var með 131 tonn í tuttugu en hann landaði í Sandgerði og Grindavík. Njáll RE var með 120 tonn í nítján róðrum, Eyvindur KE með 114 tonn í átján róðrum, Reykjaborg RE með 113 tonn í nítján, Haförn KE með 110 tonn í 18 og Erlingur GK 104 tonn í 18 róðrum. Farsæll GK var með 103 tonn í tuttugu róðrum sem landað var í Grindavík. Valur GK var með 102 tonn í nítján og Andri KE með 100 tonn í nítján róðrum.
Með þessum pistli fylgir mynd sem faðir minn, Reynir Sveinsson tók úr ísverksmiðjunni í Sandgerði og sýnir vel þann mikla fjölda af dragnótabátum sem réru frá Sandgerði.
Auk þessara báta voru Aðalbjörg II RE, Rúna RE, Sæljón RE , Þröstur RE, Guðbjörg GK og Kári GK sem var með 49 tonn í fimmtán, hinir voru með um 90 tonn hver bátur.
Eins og sést á þessari stuttu talningu þá er greinilegt að miðin þarna utan við Hafnarberg og áleiðis að Hvalsneskirkju, hafa gefið góða veiði í tugi ára og gera enn þann dag í dag.
Til viðbótar þessu hafa handfærabátar líka stundað veiðar þarna og veitt vel.