Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Góður maímánuður að baki
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 3. júní 2022 kl. 07:18

Góður maímánuður að baki

Tíminn líður áfram og ekkert fær hann stoppað. Núna er maí búinn og júní kominn í gang þegar þessi pistill kemur út – og þá fer nú að hægjast mikið á í útgerð á Suðurnesjum. Annars var maímánuður bara nokkuð góður og t.d. netabátarnir réru nokkuð duglega.

Erling KE var með 306 tonn í 23 róðrum, hann byrjaði í Sandgerði en færði sig síðan inn í Faxaflóann og landaði þá í Njarðvík. Maron GK fór líka í 23 róðra og var með 111 tonn, Halldór Afi GK 46 tonn í nítján róðrum og Bergvík GK 42 tonn í ellefu róðrum, allir að róa inn í Faxaflóa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dragnótabátarnir áttu líka mjög góðan mánuð og var Siggi Bjarna GK með 224 tonn í tólf róðrum og 30 tonn mest í róðri. Benni Sæm GK 171 tonn í tólf róðrum og mest 26 tonn. Aðalbjörg RE 110 tonn í tólf og mest 13,3 tonn, Ísey EA 109 tonn í ellefu en hann landaði að mestu í Sandgerði og í Grindavík. Maggý VE 79 tonn í sjö. Þá var Sigurfari GK með 166 tonn í sjö róðrum og mest 72 tonn í einni löndun. Þessi 72 tonn hjá Sigurfara GK voru fengin utan við Arnarfjörð á Vestfjörðum en þangað fór Árni skipstjóri og áhöfn hans á Sigurfara GK og lentu í mokveiði. Uppistaðan í þessum afla var steinbítur, eða um 54 tonn, og koli um sextán tonn. Aflinn fékkst á aðeins tveimur dögum, um átta til níu tonn í hali að meðaltali.

Þessi túr er stærsti róðurinn sem báturinn hefur gert síðan hann fékk nafnið Sigurfari GK en hann á þó stærri róður því fyrir um tíu árum síðan hét báturinn Hvanney SF og kom þá mest með 80 tonn í land í einni löndun eftir róður á netaveiðum. Var þá báturinn á netarallinu.

Annars var mikil handfæraveiði í maí og nokkrir bátar eru byrjaðir á veiðum á ufsanum, t.d. Von ÓF sem var með 14,7 tonn í níu róðrum og mest 4,2 tonn í einni löndun, Svala Dís KE með 4,34 tonn í fimm og af því var ufsi þrjú tonn. Ragnar Alfreðs GK 12,4 tonn í fjórum róðrum og mest 5,3 tonn. 

Ragnar Alfreðs GK á sér langa sögu á ufsaveiðum á handfærum og hefur um árabil verið sá smábátur sem mest hefur veitt af ufsa ár hvert.

Allir línubátarnir eru farnir í burtu nema tveir bátar voru á veiðum allan maímánuð. Sævík GK í Sandgerði og Grindavík og gekk nokkuð vel var í heildina með 119 tonn í sextán róðrum. Báturinn endaði mánuðinn á því að róa frá Grindavík og var þá uppistaðan í afla bátsins langa. Báturinn er núna kominn í slipp en skipta á um ljósavél og lengja dekkið á bátnum aftur að flotkassa.

Hinn báturinn sem réri var Margrét GK, báturinn byrjaði í Grindavík en færði sig síðan til Sandgerðis um miðjan maí og réri þaðan út mánuðinn. Í heildina var báturinn með 144 tonn í 22 róðrum og varð aflahæstur allra báta á landinu að 21 brúttótonnum. 

Eins og Sævík GK þá er Margrét GK líka kominn í slipp en ekki á að gera eins stórt og mikið við Margréti GK og Sævík GK.

Svo að lokum, síðan árið 2017 hef ég skrifað og gert svokölluð vertíðaruppgjör en þá er ég að fjalla um vertíð þess árs og fara 50 ár aftur í tímann.

Núna var ég að ljúka við að skrifa vertíðaruppgjörið fyrir vertíðina 2022 og til samanburðar vertíðina 1972. Þarna miða ég við að ef bátur nær yfir 400 tonn á vertíð kemst hann á lista og er samanburðurinn ansi mikill, t.d. um 60 bátar sem ná því árið 2022 en 206 bátar sem ná því árið 1972. Sömuleiðis er fjallað um togarana árið 2022 og líka árið 1972 en þá voru síðutogarnir og fyrstu skuttogararnir. Einnig um loðnuna árið 1972 og má til gamans geta þess að næst aflahæsti loðnubáturinn á vertíðinni 1972 var Jón Garðar GK frá Sandgerði sem landaði tíu þúsund tonnum af loðnu.

Þetta rit er hægt að kaupa og fæst hjá mér, hægt er að panta t.d. í netfangið [email protected] eða senda skilaboð á Gísli Reynisson á Facebook eða 6635575 sem er síminn og kostar það 4.000 krónur.