Gengur hratt á kvótann
Þá er nóvembermánuður gengin í garð og hann byrjar bara nokkuð vel því að nokkuð hefur þeim fjölgað línubátunum sem róa frá Suðurnesjum. Reyndar er enginn af 30 tonna bátunum kominn suður og þeir eru flestir á Austfjörðum, t.d allir Einhamarsbátarnir. Óli á Stað GK er fyrir norðan á Siglufirði.
Október var mjög góður hjá línubátunum og tveir stóru línubátar frá Grindavík náðu yfir 500 tonnin, Sighvatur GK var með 519 tonn í fjórum róðrum og Fjölnir GK 510 tonn í fimm. Reyndar var Sighvatur GK ekki aflahæstur því Tjaldur SH frá Rifi var hæstur með 576 tonn í fimm róðrum. Valdimar GK var með 480 tonn í fimm.
Af 30 tonna bátunum voru átta bátar sem yfir 200 tonnin náðu en enginn af þeim var frá Suðurnesjum. Auður Vésteins SU var hæstur af þeim með 191 tonn í sextán róðrum, Gísli Súrsson GK var með 162 tonn í fimmtán, Óli á Stað GK 134 tonn í tuttugu róðrum, Sævík GK 118 tonn í átján róðrum og Hulda GK 100 tonn í fjórtán.
Af minni bátunum var Margrét GK hæstur með 177 tonn í 21 róðri og það má geta þess að báturinn endaði október í Sandgerði og landaði þar 19,3 tonnum í tveimur róðrum og núna í nóvember hefur Margrét GK landað 16,1 tonn í tveimur róðrum í Sandgerði.
Daðey GK með 106 tonn í sautján og hann er kominn til Grindavíkur og hefur landað þar níu tonnum í tveimur róðrum. Sömuleiðis er Sævík GK kominn til Grindavíkur og hefur landað þar 13,3 tonn í tveimur róðrum.
Reyndar þegar þessi pistill var skrifaður þá landaði Sævík GK í Sandgerði. Á línumiðunum fyrir utan Sandgerði var bátur frá Rifi á veiðum sem heitir Særíf SH og hann landaði í Hafnarfirði 16,1 tonni og þegar þessi pistill er skrifaður þá er Særif SH á leið til Rifs með fullfermi en báturinn var með tvær lagnir.
Hjá dragnótabátunum var Sigurfari GK með 211 tonn í október og var næstaflahæstur allra báta í október, núna í nóvember þá byrjar veiðin rólega með fimmtán tonn í þremur róðrum.
Hjá togurnum átti Sóley Sigurjóns GK ansi góðan október því að aflinn hjá honum var 602 tonn í sex túrum og var öllu landað á Siglufirði. Vörður ÞH var með 427 tonn í sex róðrum, Áskell ÞH 415 tonn í sjö, Sturla GK 395 tonn í átta og Pálína Þórunn GK 303 tonn í sex. Þessir fjórir síðastnefndu lönduðu hluta af aflanum í heimahöfnum sínum, Grindavík og Sandgerði, og restinni var landað t.d. á Eskifirði, Grundarfirði, Djúpavogi og Siglufirði.
Reyndar vekur þessi mikli afli í október spurningu um hvað verður, því að kvótinn var skorinn ansi mikið niður og í svona mokveiði gengur hratt á kvótann. Því verður fróðlegt eða dapurlegt að sjá hvernig vetrarvertíðin 2023 verður, því það má alveg búast við því að einhverjir bátar eða togbátar þurfi að hægja á sér útaf kvótaleysi, sérstaklega eftir svona góða veiði um haustið 2022, eins og er í gangi núna.