Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Gefa ætti færaveiðar á ufsa frjálsar
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 16. ágúst 2024 kl. 07:40

Gefa ætti færaveiðar á ufsa frjálsar

Ágústmánuður farinn af stað og það þýðir tvennt. Ég á afmæli og þetta er síðasti mánuður fiskveiðiársins 2023-2024.

Þó svo fiskveiðiárið sé að verða búið þá standa eftir um 9500 tonn óveidd af þorski en heildarkvótinn var um 169 þúsund tonn. Ýsukvótinn er svo til að verða búinn en kvótinn var um 63 þúsund tonn og óveidd eru 895 tonn. Síðan er það ufsakvótinn. Hann var mjög stór eða um 69 þúsund tonn. Það sem vekur athygli er að mjög mikið er óveitt af ufsanum eða 38 þúsund tonn og stór hluti af þessu mun brenna inni og verða óveiddur þegar að nýtt kvótaár tekur gildi 1. september.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir að strandveiðarnar voru stöðvaðar þann 16. júlí síðastliðinn hafa nokkrir færabátar farið á veiðar og verið þá að mestu að eltast við ufsann. Í raun og veru þá ætti að gefa færaveiðar á ufsa frjálsar því þessi 38 þúsund tonn af ufsa sem eftir eru mun aldrei nást að veiða á þessum nítján dögum sem eftir eru af ágúst.

Talandi um færabátanna þá skulum við aðeins líta á þá það sem af er ágúst. Hafdalur GK hefur farið í fjóra róðra og landað 4,3 tonnum og mest 1,7 tonni. Af þessum afla er 4,1 tonn af ufsa. Líf NS var með 1,4 tonn í einni löndun og var ufsi af því 1,3 tonn.  Hrappur GK var með 791 kíló í einni löndun og Kristbjörg KE 1,7 tonn sömuleiðis. Kristbjörg KE er nýr bátur sem var keyptur til Keflavíkur fyrir tæpu ári síðan. Þessi bátur kemur frá Ólafsvík og hét þar Geisli SH og var gerður út þaðan í tíu ár.

Dragnótabáturinn Siggi Bjarna GK hefur hafið veiðar og landaði 12,5 tonnum í tveimur róðrum. Mikið blandaður afli hjá honum, uppistaðan ýsa 2,1 tonn, þorskur 1,6 tonn og sólkoli 1,5 tonn.

Enn sem komið er þá er enginn línubátur á veiðum frá Suðurnesjunum, allir Stakkavíkurbátarnir nema Katrín GK, sem liggur í Sandgerðishöfn, eru komnir norður, og flestir þá til Skagastrandar. Þar er t.d. Óli á Stað GK sem er með 25,3 tonn í fjórum róðrum, Gulltoppur GK 17,2 tonn í fjórum, Hópsnes GK 9,3 tonn í fjórum og Geirfugl GK með 5,6 tonn í tveimur. 

Margrét GK er á Hólmavík og hefur landað þar 34 tonnum í sex róðrum. Margrét GK er að veiða byggðakvóta sem kom í hlut Hólmavíkur og er aflinn unnin á Hólmavík. Einhamarsbátarnir sem allir réru í júlí og voru þá á Austurlandinu hafa ekkert landað það sem af er ágúst. 

Af togurum er frekar lítið að frétta. Jóhanna Gísladóttir GK hóf veiðar fyrir stuttu síðan eftir sumarfrí og kom til Grundarfjarðar með 44 tonna afla. Mest af því var þorskur, 17,5 tonn og ýsa 12 tonn. Áskell ÞH kom með 90 tonn til Grundarfjarðar og Vörður ÞH kom þangað líka með 95 tonna afla. Var þetta fyrsta löndun Gjögurstogaranna síðan í enda júní, því togararnir voru stopp í tæpa tvo mánuði. 

Hjá Nesfisk þá hefur Pálína Þórunn GK ekkert landað síðan snemma í júlí og Sóley Sigurjóns GK, sem var á rækjuveiðum, hefur ekkert landað síðan seint í júlí. Baldvin Njálsson GK kom með 829 tonn af nokkuð blönduðum afla en langmest var af ýsu í aflanum eða 592 tonn, 149 tonn af þorski. Ef miðað er við sama meðalverð og Baldvin Njálsson GK var með árið 2023, þá má áætla að aflaverðmætið hafi verið um 380 milljónir króna.