Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður á Íslandi á þessari öld
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. júní 2022 kl. 06:17

Fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður á Íslandi á þessari öld

Sjómannadagurinn er liðinn og vil ég óska sjómönnum, útgerðarmönnum og fjölskyldum þeirra sem eiga sjómenn innilega til hamingju með nýliðinn sjómannadag.

Núna, árið 2022, var aðeins haldið upp á sjómannadaginn í Grindavík en í Keflavík og Sandgerði sem og Garði og Vogum var ekkert haldið upp á þennan dag. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sýnir kannski hvað hefur gerst í útgerðarmálum á Suðurnesjum síðustu tuttugu árin eða svo. Sem dæmi var útgerð var mjög mikil í Keflavík og margar fjölskylduútgerðir sem gerðu út báta, t.d. Vonin KE, Happasæl KE, Skagaröst KE, Albert Ólafsson KE svo dæmi séu tekin.

Allt þetta er horfið núna árið 2022 og í Keflavík er enginn útgerð nema það sem Hólmgrímur er með. Það sama má segja um Sandgerði, þar er útgerð að mestu horfin. Reyndar var nú ekki mikið um fjölskylduútgerðir á stórum bátum í Sandgerði, það voru frekar stóru fiskvinnslufyrirtækin sem gerðu út báta, t.d. Rafn HF, sem gerði út Mumma GK, Víði II GK, Einir GK og fleiri báta. Valbjörn GK sem gerði út Erling GK, togarann Hauk GK og síðan Miðnes hf. sem var langstærstur í Sandgerði og eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á landinu.

Eftir stendur að Grindavík hefur svo til haldið sínu en þó eru engar fjölskylduútgerðir þar, heldur eru þetta fyrirtækin.

Vísir ehf. gerir út Sighvat GK, Pál Jónsson GK og Fjölni GK sem eru línubátar og togarann Jóhönnu Gísladóttur GK. Þorbjörn ehf. gerir út Valdimar GK, einn línubát, Sturlu GK sem er 29 metra togari, og frystitogarana Hrafn Sveinbjarnarsson GK og Tómas Þorvaldsson GK. Fyrirtækið er að láta smíða fyrir sig ísfiskstogara sem mun kom til landsins á næsta ári.

Síðan er Einhamar ehf. sem gerir út nokkra 30 tonna línubáta; Gísla Súrsson GK, Véstein GK og Auði Vésteins GK.

Að lokum Stakkavík ehf. sem á helling af bátum og gerir út ansi marga minni báta. Þeirra stærstur er Óli á Stað GK, síðan eru þarna t.d. Geirfugl GK, Hópsnes GK, Gulltoppur GK, Katrín GK. Reyndar er Stakkavík ehf. að láta smíða fyrir sig 30 tonna línubát og það út stáli. 

Skrokkurinn er smíðaður í Tyrklandi en síðan verður báturinn fullkláraður í Skipasmíðastöð Njarðvíkur og verður þetta fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður á Íslandi á þessari öld. Flestallir nýir báta sem hafa verið smíðaðir á Íslandi frá aldamótunum hafa allir verið úr plasti og langflestir verið smíðaðir hjá Trefjum ehf. í Hafnarfirði, t.d eru allir Einhamarsbátarnir smíðaðir hjá þar.

Nýjasti báturinn frá Trefjum kom einmitt til Grindavíkur og heitir hann Research GK 162. Alexander John Polsen er eigandi og verður skipstjóri á bátnum. Nafnið á bátnum, sem eins og sést, er ekki íslenskt. Það kemur frá útgerð sem Alexander átti hlut í og gerði út uppsjávarskipið Research til veiða frá Hjaltlandseyjum.

Báturinn er smíðaður til að nota á strandveiðum og vekur það nokkra athygli því núna er að verða kominn miður júni og líklegast mun strandveiðikvótinn klárast snemma í ágúst. Er þessi bátur fyrsti báturinn sem er smíðaður fyrir einstakling hérna á Íslandi í ansi mörg ár.

Báturinn hefur ekki hafið veiðar, í það minnsta þegar að þessi pistill er skrifaður.