Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Fyrsti mánuður fiskveiðiársins gerður upp
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 6. október 2023 kl. 06:00

Fyrsti mánuður fiskveiðiársins gerður upp

Eins og svo oft áður hef ég byrjað pistlana mína á þessum orðum; að tíminn æðir áfram og já, það gerir hann því að núna er september liðinn og því rétt að líta á hvernig bátunum gekk í þessum fyrsta mánuði á fiskveiðiárinu 2023–2024.

Byrjum á stóru línubátunum, þeir átti ansi góðan mánuð. Sighvatur GK var með 457 tonn í fjórum róðrum og af þeim afla var 340 tonnum landað í Grindavík, restinni á Djúpavogi í einni löndun, Páll Jónsson GK með 422 tonn fjórum róðrum og af þeim afla var 202 tonnum landað í Grindavík, restinni var líka landað á Djúpavogi eins og hjá Sighvati GK. Fjölnir GK var með 405 tonn í fjórum róðrum og af þeim afla var einungis 115 tonnum landað í Grindavík, hinu var landað á Skagaströnd og Djúpavogi. Valdimar GK var með 359 tonn í fjórum róðrum og af þeim afla var 190 tonnum landað í Grindavík, restinni á Grundarfirði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af minni bátunum var Særif SH með 190 tonn í þrettán róðrum en hann landaði að mestu í Sandgerði, síðan Grindavík og einni löndun á Arnarstapa, Auður Vésteins SU 167 tonn í sautján í þremur höfnum; Neskaupstað, Vopnafirði og Stöðvarfirði, Gísli Súrsson GK 162 tonn í fimmtán róðrum á Neskaupstað og Vopnafirði, Margrét GK 120 tonn í sextán róðrum, öllu landað í Sandgerði. Óli á Stað GK 99 tonn í fjórtán róðrum, 62 tonnum af þeim afla var landað í Sandgerði, restinni í Grindavík. Vésteinn GK 75 tonn í sjö róðrum á Neskaupstað og Stöðvarfirði, Sævík GK 98 tonn í sextán róðrum en báturinn byrjaði fyrir norðan á Skagaströnd og kom síðan suður um miðjan september og landaði 49 tonnum í átta róðrum í Sandgerði og Grindavík, Dúddi Gísla GK 65 tonn í ellefu á Skagaströnd, Katrín GK 40 tonn í sex á Siglufirði, þar var Hópsnes GK líka með 71 tonn í tólf róðrum. Geirfugl GK hóf síðan veiðar og náði einni löndun, tæp fimm tonn sem landað var í Sandgerði en hann var í slipp mestan hluta af september.

Aðeins þrír netabátar réru og tengdust þeir allir Hólmgrími. Þetta voru Addi Afi GK sem var með 13 tonn í sex róðrum, Hraunsvík GK með 12 tonn í níu og Friðrik Sigurðsson ÁR með 143 tonn í sautján róðrum en Hólmgrímur hefur leigt Friðrik Sigurðsson ÁR fram í maí árið 2024. Má segja að þessi bátur komi í staðinn fyrir Grímsnes GK. Skipstjóri á bátnum er Sigurður Haraldsson sem á bátanna Svölu Dís KE og Unu KE.

Dragnótaveiði var mjög góð. Sigurfari GK var með 222 tonn í tuttugu róðrum, Siggi Bjarna GK 214 tonn í sextán róðrum, Benni Sæm GK 175 tonn í fimmtán og Maggý VE 158 tonn í sextán, allir að landa í Sandgerði nema tvær landanir hjá Maggý VE í Grindavík og ein löndun hjá Benna Sæm GK í Keflavík.

Nokkrir færabátar voru á veiðum, t.d. Dímon GK með 6,3 tonn í átta róðrum, Líf NS 2,7 tonn í fimm, Fagravík GK 1,8 tonn í tveimur og Guðrún GK 6,4 tonn í fimm, allir í Sandgerði.