Fyrsta heila ár frystitogarans Baldvins Njálssonar GK
Þá er þessu bara lokið, árið 2022 komið svo til á enda og þessi pistill sá síðasti á þessu ári. Það má segja að árið endi með hvelli því að síðustu daga hefur verið gríðarlega mikil snjókoma og allt gjörsamlega á kafi í snjó. Sérstaklega í Grindavík og Sandgerði.
Það koma nokkrir dagar núna, á milli jóla og nýárs, þar sem að einhverjir bátar ættu að geta róið. Til að mynda á öðrum degi jóla var Hulda GK og Óli á Stað GK við línuveiðar utan við Grindavík og Benni Sæm GK var á dragnót við Reykjanesið og þegar þessi pistil er skrifaður er Sigurfari GK við dragnótaveiðar á sömu slóðum.
Dragnótaveiðarnar núna í desember hafa gegnið ágætlega. Siggi Bjarna GK er hæstur af Suðurnesjabátunum og kominn með 76 tonn í tíu róðrum og mest 21 tonn, Benni Sæm GK 58 tonn í sex og mest 18 tonn, Aðalbjörg RE 34 tonn í sex en báturinn byrjaði desember í Reykjavík og kom til Sandgerðis fyrir jólin þar sem hann verður eftir áramótin, Sigurfari GK er með 28 tonn í átta róðrum.
Það er búið að vera frekar rólegt hjá netabátunum, nýi Erling KE mun fara á veiðar eftir áramótin, og eru því aðeins Hraunsvík GK og bátarnir hans Hólmgríms sem hafa róið núna í desember. Hraunsvík GK með 4,9 tonn í tveimur, Halldór Afi GK 19,7 tonn í átta og mest 9,1 tonn í róðri sem er nú nokkurn veginn fullfermi hjá bátnum, Maron GK 38 tonn í níu róðrum og mest 9,6 tonn, Grímsnes GK kom loksins í Njarðvík fyrir jólin og var með 45 tonn í fjórum róðrum.
Grímsnes GK hefur verið við ufsaveiðar síðan í ágúst og landað að mestu sínum afla í Þorlákshöfn, af þessum 45 tonna afla er ufsi um 40 tonn.
Hjá línubátunum, sem flestallir eru komnir suður, eftir eru Geirfugl GK og Gulltoppur GK sem báðir eru fyrir norðan, þá var veiðin nokkuð góð og ef við lítum á nokkra. Fjölnir GK með 434 tonn í fjórum róðrum, Páll Jónsson GK með 392 tonn í fjórum, Valdimar GK 228 tonn í þremur róðrum og mest 116 tonn, Sighvatur GK 194 tonn í þremur, Auður Vésteins SU 122 tonn í tíu en hann er reyndar ekki kominn suður, er ennþá fyrir austan.
Óli á Stað GK með 103 tonn í fjórtán, Margrét GK 99 tonn í fjórtán, Gísli Súrsson GK 94 tonn í ellefu, Sævík GK 89 tonn í tólf, Daðey GK 76 tonn í tíu, Vésteinn GK 65 tonn í sex, Geirfugl GK 46 tonn í átta, Hópsnes GK 41 tonn í níu, Hulda GK 37 tonn í níu, Gulltoppur GK 30 tonn í fimm og Dúddi Gísla GK 58 tonn í ellefu.
Sævar Baldvinsson, skipstjóri á færabátnum Guðrúnu GK frá Sandgerði, hefur átt vægast sagt virkilega gott ár núna, árið 2022, því í byrjun desember var báturinn næstaflahæsti færabáturinn á öllu landinu og var þá um tíu tonna munur á honum og Sævari SF frá Hornafirði, sem er aflahæstur. Fyrir jólin hafði munurinn minnkað og er núna aðeins um sex tonn á milli bátanna.
Það er nú ekki mikið um það að bátar fari á handfæraveiðar á milli jóla og nýárs og hvort þetta sé lokatalan hjá báðum bátunum kemur í ljós eftir áramótin.
Árið 2022 er fyrsta heila árið sem frystitogarinn Baldvin Njálsson GK er gerður út. Reyndar gengu fyrstu túrarnir nokkuð brösulega því verið var að stilla tækin um borð og fá allt til þess að virka fumlaust. Engu að síður náði Baldvin Njálsson GK að veiða alls um tæp átta þúsund tonn á árinu að aflaverðmæti 3,9 milljarðar króna. Þetta gerir um 520 krónur á kílóið. Gamli Baldvin Njálsson GK náði mest 2,3 milljörðum en hafa ber í huga að sá togari var að mestu í ufsa og karfa. Núna þetta árið var nýi togarinn að mestu í þorsk og ýsu og fiskverð hafa verið mjög há árið 2022.
Annars vil ég óska ykkur gleðilegs nýs árs 2022 og framundan er vetrarvertíðin árið 2023.