Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Fyrirmyndarlandið
Föstudagur 4. nóvember 2022 kl. 08:21

Fyrirmyndarlandið

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Eins og ekki hefur farið framhjá dyggum lokaorðalesendum fluttum við fjölskyldan til Parísar fyrir rúmu ári. Við lifum eins og blóm í eggi, ég hef sagt það og segi það enn að ég er algjör forréttindapési. Ég er í draumavinnunni minni þar sem ég hef tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun og þróun mikilvægra málaflokka og leiða fólk saman sem allt hefur það að meginmarkmiði að gera heiminn að betri stað. Ég er umkringd fólki sem bætir mig upp alla daga og veit miklu meira en ég um alls konar. Þannig fæ ég tækifæri til þess að læra nýja hluti, aðferðir, kynnast stórkostlegu fólki og ferðast til framandi menningarheima. Ég segi bara eins og Gummi Ben forðum „…aldrei vekja mig af þessum draumi“. 

Það skemmir svo ekki fyrir að vinnustöðin er í París, þvílík borg. Og okkur fjölskyldunni líður vel, allir strákarnir komnir í spennandi skóla og verkefni og Lubbi orðinn algeltandi á frönsku. Tempóið er annað og við litla fjölskyldan náum einhvern veginn að kjarna okkur, svo ég grípi til Hjallastefnuorðalags. Það er hollt að taka sig upp og skoða sig um í heiminum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Auðvitað saknar maður fólksins síns og vina…sem eru þó búin að vera ótrúlega dugleg að koma og heimsækja okkur. En svo saknar maður líka allskonar skrýtinna hluta, mjög „random“ hluta sem af einhverjum ástæðum fást ekki hér. Margt af því er auðvitað matartengt – og hreint ótrúlegt að í þessari miklu matarkistu, Frakklandi, finnum við ennþá ekki smjör sem toppar íslenskt smjör, við flytjum Chilli Mæjó frá Fabrikkunni með okkur í lítratali og íslenski brauðosturinn er einfaldlega alltaf bestur.  Maður verður auðvitað aldrei meiri Íslendingur en þegar maður býr í útlöndum. Það er til dæmis, eins og ég hef áður gert að umtalsefni, einhver „þetta reddast“ þjóðarsál sem ég sakna mjög í Frökkunum – það að ganga bara í verkin án þess að ofhugsa þau og láta vaða. Svo eru löngu sturturnar, heitur miðstöðvarofn og opinn gluggi eitthvað sem mann dreymir um.

En það sem við höfum hér og ég myndi sakna er í fyrsta sæti auðvitað veðrið, það eru þvílík lífsgæði í því fólgin að búa við logn og þægilegt hitastig nánast allt árið, geta borðað úti á svölunum og gengið í vinnuna. Svo er það bíllausi lífstíllinn sem við tókum upp alveg óvart. Við ætluðum að kaupa okkur bíl þegar við værum búin að koma okkur fyrir, en áttuðum okkur á því mörgum mánuðum síðar að við hefðum aldrei þurft á bíl að halda. Á þessu rúma ári höfum við tvisvar leigt okkur bíl, annars förum við allra okkar ferða gangandi, í metró eða í leigubíl þegar það þarf. Og það eru lífsgæði.

Fyrirmyndarlandið er svo eitthvert sambland af þessu öllu saman – þar sem menningarheimarnir mætast.