Fleiri línubátar komnir suður
Desembermánuður kominn í gang og bátunum hefur fjölgað þónokkuð því fleiri línubátar eru komnir suður.
Ef við lítum á línubátana sem réru fyrir sunnan þá gekk þeim ansi vel, allir lönduðu í Sandgerði og Margrét GK endaði með 143 tonn í sextán róðrum og hefur síðan bætt við 8,7 tonnum í einni löndun í desember. Dúddi Gísla GK, sem byrjaði í Grindavík en fór síðan til Sandgerðis út af því sem er að gerast í Grindavík, er með 76 tonn í tólf róðrum. Af þeim afla eru 45,5 tonn í sjö róðrum í Sandgerði. Daðey GK var með 74 tonn í níu, fyrst á Skagaströnd og síðan 25 tonn í þremur róðrum í Sandgerði og Katrín GK 28 tonn í fjórum róðrum og öllu landað í Sandgerði.
Aðrir línubátar voru t.d. Sighvatur GK með 486 tonn í fjórum róðrum og mest 155 tonn í einni löndun. Báturinn var við veiðar fyrir sunnan en landaði þá í Hafnarfirði eins og hinir Vísisbátarnir. Páll Jónsson GK 479 tonn í fjórum og mest 141 tonn og Valdimar GK 354 tonn í fimm róðrum og mest 116 tonn.
Einhamarsbátarnir stoppuðu allir snemma í nóvember en hófu síðan róðra undir lok nóvember fyrir austan en núna eru Gísli Súrsson GK og Auður Vésteins SU báðir komnir suður. Auður Vésteins SU fór til Sandgerðis en Gísli Súrsson GK fór á Snæfellsnes. Vésteinn GK er ennþá fyrir austan.
Þrír bátar eru ennþá fyrir norðan og það eru allt Stakkavíkurbátar. Gulltoppur GK með 30 tonn í sex róðrum, Hópsnes GK 32 tonn í fimm og Óli á Stað GK 92 tonn í tólf, allir á Siglufirði.
Það gekk ansi vel hjá dragnótabátunum og Siggi Bjarna GK var með 179 tonn í nítján róðrum, þar af 35 tonn í einni löndun. Þennan afla fékk Siggi Bjarna GK inni í Faxaflóa, í Bugtinni, en þar sem svo mikill þorskur var í þessum afla voru 22 tonn af honum svokallaður VS afli, sem þýðir að Hafrannsóknarstofnun fær hluta af andvirði aflans. Siggi Bjarna GK endaði sem aflahæsti dragnótabátur landsins í nóvember.
Benni Sæm GK, sem líka er í Bugtinni og endaði í fimmta sætinu yfir allt landið, var með 161 tonn í nítján róðrum og mest 21 tonn, Sigurfari GK var með 117 tonn í átján róðrum.
Hjá netabátunum var Friðrik Sigurðsson ÁR með 152 tonn í 24 róðrum, Addi Afi GK 36 tonn í fjórtán og Sunna Líf GK 31 tonn í þrettán róðrum, allir að veiða fyrir Hólmgrím.
Þónokkrir færabátar voru á veiðum og veiðin hjá þeim var þokkaleg, þeir voru allir að mestu að eltast við ufsann. Agla ÁR var með 2,6 tonn í fimm róðrum, Guðrún GK 1,9 tonn í þremur, Bliki KE 778 kíló í þremur, Særós ST 3 tonn í fjórum og Dímon KE 5,3 tonn í sex róðrum og var hann aflahæsti færabáturinn frá Suðurnesjum, mest með 1,5 tonn í róðri. Hafdalur GK 1,3 tonn í einum róðri. Allir þessir bátar voru að mestu að landa í Sandgerði. Grindjáni GK var með 1,1 tonn í einum í Grindavík, sem var landað snemma í nóvember.
Sæbjúgnabáturinn Klettur ÍS kom aðeins í Njarðvík í nóvember og landaði 55 tonnum í fimm róðrum af sæbjúgum, af því var 6,9 tonn sem var landað í Njarðvík en báturinn var þá við veiðar í Faxaflóanum út frá Garðinum.
Hjá togurunum var mánuðurinn ansi góður. Sóley Sigurjóns GK átti ansi stóran mánuð var með 659 tonn í sex löndunum sem landað var á Grundarfirði, Hafnarfirði og Siglufirði, mest 145 tonn í einni löndun. Jóhanna Gísladóttir GK var með 463 tonn í sjö löndunum, Sturla GK var með 354 tonn í átta og þar af var 29 tonnum landað í Grindavík en báturinn kom þar inn um áttaleytið þann dag og fór út rétt eftir hádegið. Pálína Þórunn GK var með 246 tonn í fimm löndunum sem landað var í Grundarfirði og 113 tonnum var landað í Sandgerði í tveimur löndunum.