Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Fiskveiðiárinu 2020–2021 að ljúka
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
sunnudaginn 15. ágúst 2021 kl. 15:18

Fiskveiðiárinu 2020–2021 að ljúka

Ágústmánuður er farinn af stað og þetta er nú bara besti mánuður ársins, mörg stórmenni eiga afmæli og þar á meðal sá sem skrifar þessa línu. Kannski ekkert stórmenni en hver veit, kannski einn daginn. 

Ágúst er líka merkilegur fyrir nokkra stóra hluti, t.d. að skólarnir byrja og í sjávarútveginum þýðir þetta nýtt ár. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er nefnilega þannig að í ágústlok lýkur fiskveiðiárinu 2020–2021 og við tekur nýtt kvótaár.  Sömuleiðis þá lýkur strandveiðunum. Þannig að, já, ágústmánuður er ansi merkilegur.

Annars hefur verið frekar rólegt í höfnunum á Suðurnesjum en þó hafa handfærabátarnir veitt nokkuð vel og hafa nokkrir t.d. verið að eltast við ufsann út við Eldey og gengið ansi vel.

Þeir atkvæðamestu eru Margrét SU, sem er einn af fáum eikarbátur sem enn er í útgerð á Íslandi, en Margrét SU hefur t.d. komið með 9,4 tonn í land í tveimur róðrum núna í ágúst og þar af 5,6 tonn í einni löndun. Hinn báturinn er Ragnar Alfreðs GK hefur heldur betur veitt vel, kominn með 14,7 tonn í aðeins tveimur róðrum núna í ágúst og mest allt af því var ufsi. 

Talandi um ufsann, þá er netabáturinn Grímsnes GK byrjaður á að veiða ufsann við suðurströndina og hann byrjar vel því í fyrstu löndun sinni kom báturinn með 33 tonn í land og var ufsi af því 32 tonn. Hinn stóri báturinn sem Hólmgrímur á, Langanes GK, er á þorskanetum en samkvæmt heimildum mínum þá mun hann líka fara á ufsann eins og Grímsnes GK.

Núna eru flestallir stóru línubátarnir í sumarfríi en fyrsti báturinn sem fór af stað eftir frí var Hrafn GK sem Þorbjörn ehf. á og gerir út. 

Einhamarsbátarnir voru í fríi allan júlí en núna eru tveir bátar frá Einhamri komnir á veiðar,  Vésteinn GK er með 38 tonn í fjórum róðrum og Auður Vésteins SU 54 tonn í fimm. Gísli Súrsson GK hefur ekki hafið veiðar.

Talandi um netabátanna þá eru nú nokkrir á veiðum og veiðin þokkaleg. Bergvík GK með 11,3 tonn í fimm róðrum og mest 4,1 tonn, Guðrún GK 5,2 tonn í tveimur, Maron GK 12,5 tonn í fjórum,  Halldór Afi GK 6,1 tonn í fimm og Langanes GK fimm tonn í fjórum.

Þegar þetta er skrifað þá er enginn línubátur á veiðum frá Suðurnesjum og enginn dragnótabátur.