Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Finndu það sem heldur þínum bát á floti!
Laugardagur 22. febrúar 2020 kl. 07:47

Finndu það sem heldur þínum bát á floti!

Að byrja og enda hvern dag á möntrusöng og hugleiðslu mýkir mann að innan og opnar hjartað. Þetta er alls ekki líkt því sem maður er vanur að gera í daglegu lífi.

Þetta  jógakennaranám sem ég er í heitir Jivamukti, stofnað og sett saman af hjónunum Sharon Gannon og David Life í New York árið 1986. Ég kynntist Jivamukti í fyrrasumar (2019) og varð ástfangin af því. Kröftugt jóga, bæði líkamlega og andlega. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér hefur verið farið meira í jógaheimspekina heldur en ég áttaði mig í upphafi að yrði gert. Þannig að á meðan ég hamaðist við að æfa, handstöðu, splitt og brú þá hefði ég kannski átt að vera meira í hugleiðslu, möntrusöng og söngtímum áður en ég kom hingað.

Í jógaskólanum biðjum við kvölds og morgna í formi möntru um að verða hljóðfæri (instrument) hins æðri máttar þar sem við biðjum um frelsi frá reiði, afbrýðisemi og ótta. Við biðjum þess að hjarta okkar verði fyllt af gleði og samkennd.

Við biðjum þess að allar verur alls staðar megi vera hamingjusamar og frjálsar og að hugsanir okkar, gjörðir og orð megi með einhverjum hætti stuðla að hamingju og frelsi fyrir alla. 

Get svarið það, ég hef ekki beðist svona fyrir og sungið síðan í Vindáshlíð hér á árunum. 

Ég er segja ykkur það dagsatt að álagsmeiðslin hjá frúnni eru í formi hnéverkja og verkja í mjóhrygg og rófubeini eftir að sitja dagana langa á gólfinu með krosslagða fætur lærandi möntrur, hugleiðslu og heimspeki en ekki eftir æfingaálag vegna flókinna jógastaða.

Í fornum ritum í jógaheimspekinni er mikið talað um guði og gúrú. Jóga er samt ekki trúarbrögð, alls ekki. Við trúum vonandi öll á eitthvað; kærleika, einhvern guð, æðri mátt, alheimsorkuna, hvað sem það er. Hvað er það sem heldur þínum bát á floti? Þú fylgir því!

Þakklæti vekur auðmýkt og auðmýkt leiðir til hamingju (enlightenment). Við getum öll verið þakklát fyrir eitthvað þó ekki sé nema bara fyrir það að eiga kaffi. Já, hugsið ykkur bara ef þið ættuð ekki kaffi eða bara hárnæringu. Þetta þarf ekki að vera flókið.

Nú er námið hálfnað instant-kaffið og súkkulaðið sem ég kom með með mér búið. Spurning hvort hægt sé að panta á Amazon? Nú eða að takast á við sjálfan sig og vera án þess næstu vikurnar. 

Stóra verkefnið hér er að senda blessun til allra. Biðjast fyrirgefningar og reyna að fyrirgefa sjálfri mér og öðrum.

Og trúið því, það er erfitt. Maður á bara erfitt með að senda ÖLLUM blessun, líka þeim sem hafa ekki reynst manni vel eða einhver sem maður bara þolir alls ekki og er búin að ranghvolfa augunum yfir margoft. Þið kannski kannast ekki við það en ég er stundum  þar. Truntan sem birtist stundum innra með mér, óþolinmóð og skapstór.

Ég veit það bara að ef mér tekst ekki að koma betri manneskja heim heldur en sú sem ég var þegar ég lagði af stað þá er sennilega ekki hægt að bjarga mér.

Namaste,

Una.