Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Fíflið ég
Föstudagur 8. október 2021 kl. 07:06

Fíflið ég

Við vitum öll að lífið getur verið mjög skrýtið, erfitt og alls konar. Stundum upplifum við mótlætið  meira en við teljum okkur þola, að við fáum nú heldur betur erfið verkefni í þessu lífi og erfiðari en flestir. Undanfarnir mánuðir hafa verið aðeins á þann veginn hjá mér. Á mjög auðvelt með að selja sjálfri mér þá hugmyndafræði að þetta sé ákveðin formúla um það hvernig lífið fer í hringi, þegar allt gengur ótrúlega vel í langan tíma þá er viðbúið að höggið komi. Að eitthvað slæmt gerist. Bíð hreinlega eftir að fá vondu fréttirnar, að eitthvað gangi ekki eftir eða gangi hreinlega svo illa að manni langar mest til að gráta. Við upplifum þetta öll, en stundum fer mótlætið svo langt með mann að manni finnst nóg um, þá fer maður að tuða um lögmal Murphy‘s eða finnur allar útskýringar undir sólinni fyrir þessu mótlæti. Að þetta sé nú skrifað í skýin og hafi nú ekkert með mann sjálfan að gera. Lögmál Murphy´s, fyrir þá sem ekki vita, er skilgreining á því að það sem sem getur farið illa muni fari illa, eða með öðrum orðum neikvæðasta fullyrðing sem til er og þýðir í raun að allt fari illa; „What can go wrong will go wrong“. Ég er ekkert öðruvísi en við öll, mér finnst lífið stundum ótrúlega ósanngjarnt þó ég reyni nú oftast að sjá það jákvæða í öllum verkefnum, góðum og slæmum. 

Á sama hátt og mér finnst mótlætið stundum yfirgengilegt á ég samt oft erfitt með að staldra við þegar vel gengur, njóta og vera þakklát. Er einhvern veginn alltaf að bíða eftir þessum krefjandi verkefnum. Ég geri ráð fyrir að einhverjir kannist við þetta, að halda að lífið sé einhver formúla sem gefi okkur ákveðnar skammtastærðir af gleði og sorg, sigrum og ósigrum. En pælum aðeins í hvað þetta er ömurleg mantra að lifa eftir og ég skammast mín að viðurkenna vanmátt minn hér. Að geta aldrei bara verið í tilfinningunni þegar hamingjan er allsráðandi og vel gengur, heldur fara um leið að bíða eftir fárviðrinu, einhverju fáránlega erfiðu verkefni. Auðvitað er þetta alls ekki svona. Svona er bara lífið. Það er ansi ósanngjarnt á köflum en svo koma tímar þar sem við uppskerum og okkur finnst lífið leika við okkur. Það væri líka ansi skrýtið líf ef allt gengi bara ótrúlega vel alltaf. Þá ættum við ansi erfitt með að sjá það góða ef engin verkefni væru erfið. Og hvað myndum við svo læra af því? Eitt er víst að þegar allt gengur á þverveginn hjá manni og fíflunum fer að fjölga í kringum mann þá er það ákveðið merki um að maður sé kannski ekki á góðum stað og þurfi mögulega að fara að líta sér nær og horfa inn á við. Ég viðurkenni hér með að ég er stundum algjört fífl. Mér finnst samt sem áður mjög mikið gæfuspor þegar ég uppgötva fíflið í sjálfri mér í stað þess að finnast þau spretta á ógnarhraða allt í kringum mig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Inga B. Ragnarsdóttir.