Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Er ekki bara best að... ljúka við Reykjanesbrautina?
Laugardagur 31. desember 2022 kl. 13:00

Er ekki bara best að... ljúka við Reykjanesbrautina?

Lokaorð Hannesar Friðrikssonar

Það þykir við hæfi þegar að áramót nálgast að líta til baka yfir árið um leið og maður strengir heit um bæta úr því sem betur má fara á nýju ári. Þetta var í raun frekar undarlegt ár, með atburðum sem fæstir áttu von á, það var rifist um allskonar, sumir sögðu sitt ... og aðrir eitthvað allt annað, svo flaug þetta allt saman í burtu og nýtt tók við. Það er einmitt á svona stundu sem þjóðareinkennið tekur við, maður man fátt af því sem gerðist árinu. Skammtímaminnið nær bara til síðasta fréttatíma og komin tími til að rifja upp hvað það var sem raunverulega gerðist.

Þetta var árið þar sem Covid var sett til hliðar, kominn tími til að hefja það sem við köllum eðlilegt líf. Við máttum loksins hitta fjölskylduna á ný, taka utan um og jafnvel kyssa þá sem okkur þykir vænt um. Pútín hóf hræðilegt innrásarstríð í Úkraínu, með ómældum hörmungum fyrir þá sem þar búa. Drottningin dó í Bretlandi, eldgos hófst aftur í Fagradalsfjalli, það kom  vont veður í Keflavík og það er eiginlega það sem þessi síðustu lokaorð ársins munu fjalla um.

Netverjar vöknuðu upp við vondan draum að morgni laugardags, það hafði snjóað um nóttina eins og oft gerist í desember. Það er óhætt að segja að menn hafi verið nokkuð misjafnt stemmdir, sumir fögnuðu en aðrir kveinkuðu hástöfum yfir að ekki væri búið að ryðja allar húsagötur – og klukkan varla orðin átta. Þetta átti eftir að versna, það kom meiri snjór og meiri vindur, eins og líka gerist oft í desember. Að endingu varð að loka Reykjanesbraut og farið var að fella flug niður. Flugstöðin fylltist af fólki sem annað hvort var að koma eða fara. Af fréttum að dæma húktu ferðamenn þar við þröngan kost og hinar verstu aðstæður. Um tíma var tekið upp áætlunarflug til Reykjavíkur. Þetta var ekki gott fyrir orðstír Íslands sem ferðamannaland og gatnakerfið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar að upp var staðið og vindur var tekinn að hægjast kom í ljós að Vegagerðin var með flestallt í skrúfunni þegar kom að björgum. Það hafði gerst sem átti ekki að gerast. Flug lá niðri í tvo daga, að sögn Isavia ekki vegna þess að ekki var hægt að fljúga heldur vegna þess að ekki var hægt að komast að flugstöðinni.

Ráðherrra innviða og vegagerðar í landinu sté keikur  fram og sagðist tryggja að að slíkt gerðist ekki aftur. Forsætisráðherra sem hafði verið veðurteppt í útlöndum var sama sinnis. Völd ráðherra virtust orðin meiri en skrifað er í gömlu stjórnarskrána – og ljósara en áður að endurnýjunar er þörf. Þeir ráða nú yfir veðri og vindum og veðurstofan óþörf. Kannski var það nú ekki alveg þannig sem þau voru að meina þetta, heldur frekar að nú yrði ráðist í þær nauðsynlegu aðgerðir sem kallað hafði verið eftir af heimamönnum í áratugi. Kaupa alvöru snjóblásara sem réði við verkefnið og fjölga tækjum þannig að hægt væri að ryðja úr báðum áttum þegar að slík ósköp dyndu yfir næst.

Það var örugglega bara gott til lengri tíma litið að Reykjanesbrautin lokaðist. Augu ráðamanna virðast vera að opnast fyrir mikilvægi brautarinnar og hver áhrifin geta verið lokist hún. Til þess að hún lokist ekki þarf að ráðast í aðgerðir á báðum endum hennar, ljúka tvöfölduninni og byggja upp endakaflann fyrir ofan Keflavík, þannig að hægt sé að ryðja hann vel og örugglega. Ég held að þeir ráðherrar sem tjáð hafa sig um þetta mál hljóti að hafa meint einmitt þetta. Er ekki bara best að ljúka við Reykjanesbrautina, þannig að hún verði ekki framar sá veiki hlekkur sem slítur keðjuna þegar kemur að orðspori Íslands sem ferðamannalands og öryggi íbúa á Suðurnesjum? Það held ég væri verðugt verkefni til að takast á við á nýju ári, svo forsætisráðherra og innviðaráðherra geti staðið við orð sín um að slíkt gerist ekki aftur.

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir hið liðna.