Endalok báts með sál og sögu
Júnímánuður kominn á fullt og sem betur fer er veðurfarið nú mun betra en það var í maí. Þetta gerir það að verkum að þessi gríðarstóri floti af færabátum sem flestir eru á strandveiðum hefur getað róið. Um 60 bátar hafa verið að landa í Sandgerði og veiða þar fyrir utan.
Þar sem sjómannadagurinn er liðinn þá komu allir frystitogararnir inn með afla og var landað úr þeim annað hvort fyrir sjómannadaginn eða þá eftir hann.
Byrjum á Tómasi Þorvaldssyni GK, hann kom með 319 tonn í land til Grindavíkur og mest var af þeim afla þorskur, eða 96 tonn, grálúða var 78 tonn og ufsi 46 tonn. Hrafn Sveinbjarnarson GK kom 15. maí til Hafnarfjarðar með 401 tonn og af því var þorskur 217 tonn, grálúða 61 tonn og karfi 44 tonn. Hrafn Sveinbjarnarson GK er núna kominn í slipp og verður frá veiðum langt fram eftir sumri. Nær líklega einum túr áður en fiskveiðiárinu lýkur þann 31. ágúst næstkomandi.
Baldvin Njálsson GK kom með 377 tonn til Hafnarfjarðar og uppistaðan í þeim túr var grálúða 270 tonn og þorskur 56 tonn. Baldvini Njálssyni GK hefur verið haldið til veiða í grálúðunni en þorskkvóti Nesfisks er af skornum skammti og hefur fyrirtækið látið dragnótabátanna sína veiða þorskinn, sem er mjög sniðugt hjá þeim því Pálína Þórunn GK hefur verið frá veiðum síðan í enda febrúar eftir að gírinn bilaði.
Talandi um þorskinn þá eru Excel-snillingarnir hjá Hafró búnir að finna það út að þorskstofninn sé að stækka og hann mældist 7% stærri núna þetta árið en árið á undan. En hvað gera þeir? Jú, þeir leggja til að þorskkvótinn verði aðeins aukin um 1%. Sjávarútvegsráðherra getur breytt þessari prósentu en vegna þess að Svandís sjávarútvegsráðherra er einungis þar á pappírum og hefur engan skilning á því sem er í gangi í sjónum í kringum landið þá mun hún örugglega halda sig við þessa 1% aukningu.
Undanfarin ár, og sérstaklega yfir veturinn, hefur verið mokveiði á þorski að miklu leyti við sunnanvert landið og í Breiðafirðinum og í vetur þá skrifaði ég um það og líka voru fréttir í Víkurfréttum um mokveiði og eiginlega hálfgert vandræðaástand vegna mikillar þorskveiði. En því miður þá er þarna einhver prósentutala sem sker út um það hversu miklu af þorski má veiða.
Fyrst ég er kominn í smá ham varðandi þessa stjórnum fiskveiða þá langar mér að nefna að sjávarúvegsráðuneytið hefur ákveðið vægast sagt einn ömurlegan hlut – en ég þarf aðeins að grafast betur í því áður en ég get farið að skrifa um það.
Endum þetta á einum þekktasta netabáti Íslands. Bátur númer 89, Grímsnes GK sem lengi hét Happasæll KE. Það kom upp eldur í bátnum í apríl núna á þessu ári sem hefur verið fjallað um hérna í þessum pistlum og líka í Víkurfréttum. Báturinn var dæmdur ónýtur eftir þennan bruna og lá í Njarðvík þangað til fyrir nokkrum dögum síðan. Þá kom dráttarbátur frá Danmörku til Njarðvíkur og tók Grímsnes GK í tog og dró bátinn til Færeyja þar sem endalok bátsins verða, því þar verður báturinn rifin.
Ég segi oft að bátar eigi sér sál og sögu – og já, bátur númer 89 átti það svo sannarlega. Hann átti sér langa sögu frá Suðurnesjum og þeir sem ég hef talað við varðandi bátinn tala allir um það hversu gríðarlega góður bátur hann var og hörku sjóskip. En því miður. Saga Grímsnes GK/Happsæls KE er þar með endanlega lokið.