Elstu barnaskólar landsins
Á 18. og 19. öld fór kennsla fram á heimilum. Skyldu húsbændur sjá um að börnin lærðu að lesa, en prestar sjá til þess að það væri gert. Árangurinn var sá að frá því um 1800 kunnu flestir landsmenn að lesa en færri að skrifa. Þetta var ódýrt kerfi og virkaði. Engin skólahús þurfti að byggja, engin skólabörn að flytja og ekki að borga laun kennara – nema ráðinn væri einkakennari en það fór í vöxt. Skólaskylda komst ekki á fyrr en með fræðslulögum 1908 og þá aðeins fyrir tíu til fjórtán ára börn. Margir fyrstu barnaskólanna voru byggðir upp og reknir af áhugamannafélögum.
Jón Árnason Skálholtsbiskup lagði fram tillögu árið 1736 um „barnaskóla í hverri sýslu“. Elsti barnaskóli á Íslandi sem sögur fara af var starfræktur í Vestmannaeyjum 1745–1760 af litlum efnum. Prestarnir og hreppstjórinn stóðu fyrir þeim skóla. Hér segir frá skólanum og einnig frá barnaskóla er stofnaður var í Vestmannaeyjum löngu síðar og tók til starfa 1884.
Hausastaðaskóli í Álftaneshreppi var stofnaður 1892. Byggt var fyrir Thorkilliifé veglegt 46 m² hús, ásamt risi, fyrir tólf öreigabörn, til að halda í þeim lífinu og koma þeim til manns. Auk námsskrár barnaskólans; að lesa, skrifa, reikna og lesa kristinfræði, lærðu nemendur til verka allt árið við landbúnað, fiskveiðar, smíðar, tóvinnu og garðrækt. Þetta var heilsársskóli fyrir sex til sextán ára stúlkur og drengi, sem bjuggu í skólanum. Flestir voru nemendur sextán talsins og voru greiddir sextán ríkisdalir með hverju barni. Erfitt var að halda skólanum gangandi vegna naumra fjárveitinga, enda þótt hann hann væri ein ríkasta stofnunin í landinu. Lét stiftamtmaður leggja skólann niður 1812. Nánar hér.
Í Reykjavík var stofnaður barnaskóli 1830 sem starfaði til 1846, í Aðalstræti 16. Gert var ráð fyrir tuttugu börnum. Skólagjald var sex ríkisdalir á ári sem reyndist of hátt fyrir fátækt alþýðufólk. Þá kom Thorchilliisjóður til hjálpar, þar til menn fundu út 1846 að það samræmdist ekki reglum sjóðsins að greiða rekstrarhalla einkaskóla yfirstéttarinnar í Reykjavík. Lagðist skólinn þá niður, enda kusu efnaðir foreldrar að kenna börnum sínum heima. Lagt var fram frumvarp á Alþingi 1853 um stofnun barnaskóla í Reykjavík. Þar var stofnaður barnaskóli 1862, samkvæmt tilskipun konungs 1859. Var hann í óhentugu gömlu timburhúsi í Hafnarstræti, þar til byggt var vandað skólahús í Pósthússtræti árið 1883 (sjá mynd). Það hús varð síðar lögreglustöð er skólinn flutti 1898 í hús sem síðar nefndist Miðbæjarskólinn.
Að Leirá starfaði barnaskóli í sérbyggðu húsi 1878–1889 á vegum Þórðar Þorsteinssonar bónda og einnig í Gaulverjabæ 1881–1890 á vegum séra Páls Sigurðssonar.
Elstu barnaskólar landsins sem starfað hafa samfellt – og stofnár þeirra:
1852: Barnaskólinn á Eyrabakka og Stokkseyri, í eigin húsnæði frá upphafi.
1862: Barnaskólinn í Reykjavík (rekinn frá upphafi af sveitarfélaginu, fyrst í leiguhúsnæði).
1872: Thorkillii barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi og Gerðaskóli í Garði, báðir í eigin húsnæði.
1874: Barnaskólinn á Ísafirði. Árið eftir byggt hús, Silfurgata 3, síðan nýtt hús 1901.
1875: Mýrarhús á Seltjarnarnesi og í Hafnarfirði, undanfari Flensborgar í tvö ár.
1877: Flensborg Hafnarfirði barnaskóli, varð alþýðu- og gagnfræðiskóli 1882, með kennaradeild 1896–1908.
1880: Bessastaðaðir og tímabundið í Njarðvík og Kjós
1881: Seyðisfjörður. Skólahús kom tilhöggið frá Noregi 1907.
1882: Njarðvík, skóli með ýmsu móti til 1911, þá sameiginlegur með Keflavík til 1939.
1884: Vestmanneyjar (þar var áður barnaskóli 1745–1760).
1889: Keflavík (í Góðtemplarahúsinu). Skólahús við Skólaveg reis 1911 og sameinast Njarðvíkurskóla.
Þetta er ekki tæmandi upptalning, vantar t.d. upplýsingar um Akureyri. Í skýrslu í Tímariti um uppeldi og kennslumál 1888 er alls getið 30 skóla, en margir þeirra störfuðu ekki öll árin.
Heimildir m.a.: Frumgerðir sjávarþorpa (https://www.vefnir.is/grein/frumgerdir-sjavarthorpa) Loftur Guttormsson: Lýðmenntun. Minning 200 ára skóla í Vestmannaeyjum (https://timarit.is/files/15855196). Ágríp af skólasögu Garðabæjar (http://lisaadmin.gardabaer.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3710); Alþingistíðindi 1853 (https://books.google.is/books?id=4OhOAAAAYAAJ&pg=PT8&lpg=PT8&dq=stofnaðir+barnaskólar+í+Danmörk&source=bl&ots=SSLXZdniz3&sig=ACfU3U3UGBbYqv0EaZSz2KNAEWT3LzOXAw&hl=en&sa=X&ved=2ahUKEwi8gurRs_D0AhXbEcAKHUsKBkgQ6AF6BAgqEAM#v=onepage&q=stofnaðir barnaskólar í Danmörk&f=false). Skýrsla um barnaskóla 1887-1888 (https://timarit.is/files/21136303) o.fl.