Ekki á meðan ég lifi
Á uppvaxtarárum mínum í Keflavík fórum við fjölskyldan reglulega í sunnudagsbíltúr um Reykjanesið. Minning mín er af aðeins of löngum bíltúrum í fjölskyldubílnum – Ford Cortinu – á mjög misgóðum malarvegum. Ég man eftir að horfa úr aftursætinu á Keili og allskonar hraun og gígaraðir og hafði barnslegar áhyggjur af því að það kæmi allt í einu eldgos og þetta myndi allt springa í loft upp. Þegar ég lét þessar áhyggjur mínar í ljós við foreldra mína þá gerðu þau mjög lítið úr því og ég man eftir að pabbi minn sagði mér að þetta væri nú alls ekkert til að hafa áhyggjur af. Reykjanesið væri steindautt, hér hafði ekki gosið síðan Snorri Sturluson var og hét og hann var algjörlega viss um það myndi ekki gerast aftur: „Alla vega ekki á meðan ég lifi,“ eins og hann sagði.
Elsku pabbi hafði að hluta til rétt fyrir sér. Það gaus aldrei á Reykjanesinu í þau 88 ár sem hann lifði. Hann dó fyrir tæpum fjórum árum, þann 18. nóvember 2019. En hann hafði hins vegar ekki alveg rétt fyrir sér um Reykjanesið – það er síður en svo steindautt. En síðan pabbi dó er búið að gjósa þrisvar sinnum, í fyrsta sinn 19. mars 2021 við Fagradalsfjall. Reykjanesið er vaknað af værum svefni.
Við höfum verið heppin með þessi þrjú gos. Falleg túristagos sem hafa ekki ógnað lífi íbúa Reykjaness né mikilvægum innviðum. Eiginlega bara verið dáldið spennandi. Grindvíkingar auðvitað sérstaklega, og við Suðurnesjamenn öll, höfum orðið fyrir einhverjum óþægindum, upplifað endalausa jarðskjálfta, en þetta hefur allt sloppið til.
Núna er staðan öll önnur. Nú líður mér dáldið eins og litlu stelpunni í aftursætinu sem hafði í alvörunni áhyggjur af því að Keilir myndi springa í loft upp í sunnudagsbíltúrnum. Þetta er of nálægt, þetta er of alvarlegt og við erum svo áþreifanlega vanmáttug í alla staði. Hér eru jarðhræringar í gangi og við vitum ekkert hvar, hvort eða hvenær eitthvað gerist.
Þegar þetta er skrifað hefur ekki gosið. Þegar þetta er skrifað hefur Grindavíkurbær hins vegar verið rýmdur og búið að gera allt sem er til að tryggja öryggi íbúa og þá innviði sem hægt er að vernda. Það skiptir mestu máli. En þegar þetta er skrifað er líka vitað um stóra sprungu sem liggur í gegnum Grindavíkurbæ. Og enginn veit neitt.
Ég, eins og þjóðin öll, sendi mínar allra bestu kveðjur og strauma til Grindvíkinga og vona svo hjartanlega að þetta fari allt vel og að bærinn verði fjarri eldgosalínunni. Ég vona líka og óska þess að okkar mikilvægu innviðir, virkjunin í Svartsengi, Bláa lónið og annað sleppi. Hér vitum við hins vegar bara ekki neitt og erum eina ferðina enn bara einfaldlega á valdi Móður Jarðar.
Og það eina sem við getum gert sem samfélag og sem þjóð er að standa saman og hjálpa hvert öðru. Ég er ekki frá því að pabbi minn hafi líka sagt mér það þegar við vorum að keyra Reykjaneshringinn – að þetta gerist ekki á meðan ég lifi, en við myndum alltaf öll hjálpast að ef eitthvað myndi gerast. Auðvitað.