Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Einn versti janúarmánuður í manna minnum
Sigurfari GK landaði í janúar 51 tonni í átta róðrum og mest sautján tonnum í einni löndun
Föstudagur 31. janúar 2020 kl. 16:39

Einn versti janúarmánuður í manna minnum

Er þetta ekki bara allt að koma? Einn versti janúarmánuður svo til eins og langt aftur og menn rekur minni til er alveg að verða liðinn og sem betur fer ætlar hann að enda ágætlega. Veðurspáin er góð og því ættu bátar að geta róið nokkuð duglega núna í vikunni.

Mikill fjöldi báta hefur verið að róa utan við Sandgerði og er aflinn hjá þeim orðinn mjög góður. Sævík GK kom með 13,1 tonn í land í einni löndun og Margrét GK kom með risaróður, 15,8 tonn í einni löndun. Daðey GK kom með 9,2 tonn í einni löndun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Beta GK fór í brælunum inn í Keflavík og náði að fara í tvo róðra, heildaraflinn er kominn í 33 tonn í fimm róðrum og mest 7,8 tonn í einni löndun. Það sama gerði Guðrún GK og báturinn gerði ansi góðan róður fyrir brælutímann eftir að hafa lagt línuna utan við Garðinn og kom með 11,7 tonn í land í einni löndun. Katrín GK, sem er svo til eini stálbáturinn af minni gerðinni sem er að róa á línu, er kominn með 28 tonn í sex róðrum og mest 8,6 tonn í einni löndun. Gísli Súrsson GK hefur haldið sig í Grindavík og er kominn með 34 tonn í sjö og mest níu tonn í einni löndun. Dúddi Gísla GK er líka í Grindavík og hefur landað 23 tonnum í fimm róðrum, mest 5,5 tonnum í einni löndun. Addi Afi GK fór í sinn fyrsta róður á árinu 2020 og hann var ansi góður því báturinn var með 5,1 tonn í einni löndun.

Netaveiði í janúar komst eiginlega aldrei í gang og hefur vertíðin hjá bátunum verið nokkuð treg. Erling KE er með 40 tonn í níu og mest átta tonn sem landað var í Grindavík. Grímsnes GK 34 tonn í tólf, Hraunsvík GK nítján tonn í níu landað í Grindavík. Halldór Afi GK fimm tonn í fimm, Maron GK 4,6 tonn í fimm. Sunna Líf GK 1,3 tonn í tveimur og Bergvík GK 1,7 tonn í tveimur.

Annars er ég núna staddur ansi fjarri Suðurnesjunum því ég er að skrifa þennan pistil frá Hala í Suðursveit, þar sem Þorbergsetrið er. Hérna er enginn höfn eins og gefur að skilja og næsta höfn er Höfn í Hornafirði.

Það er nú hægt að finna ansi margar tengingar við Suðurnesin. Ég ætla reyndar ekki að fara djúpt í þær pælingar því það væri hægt að fylla heilt blað af Víkurfréttum um tengingar Hornafjarðar við Suðurnesin. Nýjasta tengingin er að nýjasti togbáturinn sem Nesfiskur keypti er kominn á flot og að verða klár til veiða. Pálína Þórunn GK heitir hann en hét áður Steinunn SF. Um borð í Steinunni SF var Sandgerðingurinn Sævar Ólafsson meðal annars skipstjóri. Nesfiskur keypti líka annan bát þaðan sem heitir Sigurfari GK og báðir þessir bátar eru komnir með nýju merkinguna og Sigurfari GK hefur núna í janúar landað 51 tonni í átta róðrum og mest sautján tonnum í einni löndun.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is