Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Einfalt líf
Laugardagur 25. apríl 2020 kl. 12:04

Einfalt líf

Fyrir mörgum árum gaf ein af mínum bestu vinkonum mér dýrmæt ráð. Ráð sem ég skildi ekki á þeim tíma, fannst þau hálfleiðinleg og þótti enn erfiðara að fara eftir. Hún vildi meina að ef ég myndi ná að einfalda líf mitt þá yrði auðveldara fyrir mig að takast á við erfiða hluti, eða bara alla hluti. Ná þannig að njóta þessara litlu hluta í lífinu. Njóta þess að vera ein með sjálfri mér. Njóta þess bara að vera. Engin geimvísindi svo sem en ótrúlega dýrmætt og mikilvægt. Viðurkenni hér með að mér hefur ekki tekist neitt sérstaklega vel að lifa eftir þessu ráði, þrátt fyrir að það hafi verið greypt í huga mér æ síðan.

Í dag er 36. dagurinn í samkomubanni. 36. dagurinn þar sem við Íslendingar erum krafin um að fara eftir þessu ráði, að einfalda líf okkar. Í dag eru líka 53 dagar síðan ég hætti að vinna að eigin frumkvæði, með framtíðina sem óskrifað blað. Án skuldbindinga ætlaði ég að njóta þess að vera ein með sjálfri mér í fyrsta skipti á ævinni, stunda yoga, hugleiðslu og finna mig í streitulausu lífi. Ég var komin á þann tímapunkt þar sem ég hugsaði að nú þyrfti ég að fara eftir þessu ráði frá vinkonu minni, rekja upp flækjurnar í tilverunni og finna út hvað ég raunverulega vildi gera í lífinu. Ég náði heilum sautján dögum með sjálfri mér áður en allir í fjölskyldunni minni voru „groundaðir“ með mér í heimaveru. Ráði vinkonu minnar var þröngvað upp á mig og flesta aðra á jörðinni á ógnarhraða. Allir og ömmur þeirra voru beðnir að vera heima, vinna heima, vera í skólanum heima og meira að segja stunda ræktina heima. Ég viðurkenni að það hefur verið mikil ögrun að lifa við þessar breyttu aðstæður. Ég fékk t.d. alvarleg þráhyggjuköst yfir því hvað mér fannst dætur mínar ganga illa um, mér fannst heimilið undirlagt. Mér fannst ég endalaust „þurfa“ að vera að ganga frá eftir aðra. Mér fannst ég komin í aðstæður sem ég gat illa höndlað. Það tók mig um tvær vikur að sjá það að þetta fyrirkomulag var einmitt það sem ég þurfti. Einfalt líf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum flest vön annars konar rútínu. Vakna, kaffi, sími, fréttir, vinna, skóli og svo seinni partinn þá er það „hvað er í matinn?“, „hverjir verða heima?“, „hvað á að gera um kvöldið?“, „ræktin?“, „samvera?“ o.s.frv. Hlaðin dagskrá og streita. Að vera í mikilli nánd við fólkið okkar allan daginn, alla daga í 36 daga er eitthvað sem við höfum flest þurft að takast á við. Veit ekki hvort við séum öll á sama stað en ég þurfti aðlögunartíma fyrir þessa miklu samveru og endurskipuleggja daginn frá grunni. Ég þurfti sannarlega að einfalda líf mitt og finna sáttina. Í staðinn fyrir að vera með þráhyggju yfir því að plana framtíðina, utanlandsferðir, matarboð og vökva neyslublómið hef ég náð að njóta þess bara að vera. Ekkert kapphlaup um lífsgæði. Ekkert kapphlaup punktur. Ég vona sannarlega að þessi breyting sé komin til að vera.

Inga Birna Ragnarsdóttir.