Ég og Messi í París
Svona getur lífið verið skemmtilegt. Einmitt þegar ég var að byrja í nýrri vinnu í París nú um miðjan ágústmánuð var knattspyrnustjarnan Lionel Messi líka að byrja í nýrri vinnu í París. Við erum kannski ekki alveg í sama geiranum, en það vill samt svo til að vinnurnar okkar eru í sama hverfinu. Paris Saint-Germain er hverfis liðið mitt núna – mitt Keflavík - og það er bara nokkur hundruð metra lengra á völlinn fyrir mig núna en það er á Keflavíkurvöllinn frá Heiðarbrúninni. Ég viðurkenni að ég hef ekki verið mjög dugleg að mæta á Keflavíkurleikina og veit að ég verð ekki alltaf mætt á Parc des Princes, en hjarta mitt slær nú sem endranær fyrir Keflavík og svo núna auðvitað fyrir PSG. Þetta er líka svo auðvelt, búningarnir í sömu litum og allt svo fallegt.
Þegar maður er að byrja í nýrri vinnu, flytja fjölskylduna á milli landa og að átta sig á nýjum aðstæðum þá held ég í alvöru að það skipti ekki máli hvort maður sé Messi eða Ragnheiður Elín – þetta er svo til nánast sama verkefnið. Á endanum snýst þetta allt um það sama – að fólkinu þínu og öllum líði vel. Ég vona að Messi fjölskyldunni hafi gengið jafn vel og okkur að finna íbúð sem heldur vel utan um þau (kannski í þeirra tilfelli risastórt hús), finna skóla fyrir börnin og að honum finnist hann jafn velkominn í nýju vinnunni sinni og mér í nýju vinnunni minni. Ég horfði á fyrsta leik PSG í franska sjónvarpinu þar sem Messi var kynntur til leiks, yfirskriftin með stórum stöfum „Messi à Paris“ (þó svo að hann hafi ekki einu sinni verið í liðinu það kvöld) og hann var boðinn velkominn með háværum húrrahrópum og fagnaðarlátum. Hverfið okkar iðaði af lífi og stemningin fyrir leik var frábær þar sem veitingahúsin voru full af PSG aðdáendum í fullum skrúða, allir hrópandi á Messi. Þetta var geggjað og verður skemmtilegt að upplifa í vetur.
Ég segi kannski ekki að það hafi verið almenn hátíðarhöld í hverfinu þegar ég hóf störf hjá OECD, en mér líður samt eins og það hafi verið þannig – mér líður eins og ég sé Messi! Ég er svo uppnumin og óendanlega þakklát fyrir móttökurnar að ég á ekki orð. Svo ég haldi áfram með fótboltalíkinguna þá vil ég bara vitna í Gumma Ben: „Aldrei vekja mig af þessum draumi!!“
Við fjölskyldan sendum góðar kveðjur heim, hrópum hávær húrrahróp yfir hafið þegar Keflavíkurstelpur og strákar eru að spila og baráttukveðjur á lokasprettinn.
Áfram Keflavík – koma svo!