Bless Keflavík ... að minnsta kosti í bili
Mér reiknast svo til að af minni rúmu 55 ára ævi hafi ég átt lögheimili í Keflavík í tæplega 43 ár. Á þessum 43 árum bjó ég reyndar samt á nokkrum öðrum stöðum; í leiguíbúðum í Reykjavík á námsárunum, nokkur ár í Bandaríkjunum og svo síðasta eina og hálfa árið í París. En stelpan getur farið frá Keflavík en það tekur enginn Keflvíkinginn úr stelpunni.
Þegar ég byrjaði í pólitíkinni var ég nýflutt í Garðabæ og kynnti mig í prófkjörinu 2006 sem „keflvískan Garðbæing“. Pólitíkin varð svo einmitt til þess að ég flutti aftur heim fyrir tæpum þrettán árum. Okkur fjölskyldunni hefur liðið vel á Heiðarbrúninni og ég er mjög stolt af því að Akureyringurinn sem ég er gift er fyrir löngu síðan orðinn sannur Keflvíkingur og synirnir báðir að sjálfsögðu, enda með keflvísku genin.
En nú er komið að leiðarlokum ... að minnsta kosti í bili. Það er útséð með að það sé hægt að reyta arfa og slá gras rafrænt á milli landa. Við höfum reynt, en verðum að játa okkur sigruð. Það sannaðist líka með mjög skýrum hætti í jóla„fríinu“ að það hefur ekki tekist vel hingað til að taka til í bílskúrnum í gegnum Zoom. Og þar sem við sjáum fyrir okkur nokkur ár í viðbót hér í París tókum við þá ákvörðun að selja dásamlega húsið okkar og koma því í góðar hendur.
Við eigum góðar minningar og munum sakna margs – að horfa yfir fallega upplýstan kirkjugarðinn á aðventunni, að baka okkur í sumarsólinni á skjólgóða pallinum, allar skemmtilegu stundirnar með fjölskyldu og vinum á Heiðarbrúninni við ýmiss konar tækifæri; útskriftir, fermingar, afmæli, skírnir, kosningar, matarboð, jólaboð og gamlárspartý. Og líka bara þess að hanga saman fjölskyldan og hnoðast öll í hrúgu í sjónvarpssófanum. Þarna fóru strákarnir mínir úr því að vera börn í unga menn, á meðan við hjónin auðvitað yngdumst bara með hverju árinu.
Ég á eftir að sakna þess að ganga Strandleiðina fallegu í allskonar veðrum með Björk og Lubba, skyndineyðarfunda með Mánudax, Þorrablóta, Nettómóta og sundmóta. Og auðvitað fjölskyldu, vina og ykkar allra sem hafa verið partur af Keflavíkurlífinu okkar og verðið það auðvitað áfram.
Keflvísku Parísarbúarnir þakka fyrir sig í bili. Þar til næst – áfram Keflavík!
Ragnheiður Elín Árnadóttir.