Bjössi Sól var magnaður á síldinni
Höldum áfram með Vogana enn árið 1999 kaupir Valdimar hf. línubátinn Austurborg GK sem síðar fékk nafnið Valdimar GK og þegar Fiskanes, Valdimar hf. og Þorbjörn hf. í Grindavík sameinuðust fór Valdimar GK yfir í Þorbjörn hf. og er ennþá gerður út undir nafni Þorbjarnar, öfugt við þegar Vogar hættu, þá var enginn fiskvinnsla lengur í því húsi, en þá hefur verið fiskvinnsla í húsnæði Valdimars hf í Vogunum.
Aftur að Vogum en eftir þar síðasta pistil sem fjallaði að nokkru um fyrirtækið Vogar hf. bárust mér ansi margar ábendingar um að ekki væri farið rétt með sögu þess fyrirtækis. Það var nefnilega þannig að fyrirtækið var stofnað árið 1942 og fyrsti framkvæmdastjóri þess var Jón G Benediktsson. Eigendur voru margir útvegsbændur af Vatnsleysuströndinni og einn af þeim var Ólafur Solimann. Hann hægt og bítandi keypti hann upp bændurnar og var kominn með 80% af hlutfé fyrirtækisins. Árið 1952 seldi Ólafur sinn hluta og Einar Guðfinnson á Bolungarvík keypti stærsta hlutinn, en Jón G. var áfram framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Fyrirtækið átti ekki marga báta, aðeins 3, Ara GK og Hafrúnu ÍS og gerði út báta frá 1959 til 1975. Annar afli var að mestu fenginn frá öðrum bátum og var unnið í húsinu allar helstu bolfiskafurðir, humar og loðnu sem var fryst. Vogar hf. átti frá upphafi aðild af Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna og var með vinnslunúmer SH 49. Auk þess seldi fyrirtækið í gegnum SÍF og SSF sem var skreiðarframleiðanda.
Þetta með að Einar Guðfinnsson á Bolungarvík hafi átt hlut í fyrirtækinu alveg þangað til að Garðar Magnússon kaupir fyrirtækið árið 1977, skýrir ansi mikið af hvejru bátar frá Bolungarvík voru á sumrin á humarveiðum og lönduðu þá meðal í Sandgerði og Keflavík og var sá afli unnin í Vogum hf. Ari GK númer 2 sem var keyptur árið 1970 var einmitt keyptur frá Bolungarvík og hét þar Einar Hálfdáns ÍS. Þess til viðbótar má geta þess að Ólafur Solimann sem átti í fyrirtækinu frá upphafi til 1952 var nokkuð stór útgerðaraðili og sonur hans Arnbjörn H. Ólafsson eða Bjössi Sól eins og hann var kallaður var skipstjóri meðal annars á báti sem hét Jón Guðmundsson KE. Hluti af aflanum sem m.a. Jón Guðmundsson KE veiddi var lagður upp hjá Vogum hf .
Fyrst ég er kominn í Jón Guðmundsson KE þá má geta þess að Bjössi er orðinn níræður og ansi magnað að hugsa til þess að eitt árið fyrir rúmri hálfri öld þegar síldveiði var sem mest og hann lagði upp frá Keflavík fékk hann 900 tonn á vertíðinni. Yfir sumarið fór báturinn á síld og fékk alls 2.295 tonn af síld fyrir norðan og kom síðan suður og var á haust síld fyrir sunnan og landaði þá alls 1890 tonnum.
Jón Guðmundsson KE var 75 tonna eikarbátur og sagði Bjössi að fullfermi af síld hafi verið um 120 til 135 tonn. Þetta er ansi magnaður afli því heildaraflinn hjá bátnum var alls 5.085 tonn á aðeins 75 tonna báti. Ótrúlegt. Valdimar GK sem ég byrjaði pistilinn og er 569 tonna bátur hefur aldrei náð að veiða 5085 tonna á einu ári eins og Bjössa tókst að gera á Jóni Guðmundssyni KE fyrir um 60 árum síðan.
Annars er þessi pistill skrifaður frá Þýskalandi enn ég er þar staddur núna með fjölskyldu minni og vanalega þegar ég hef verið í þessum ferðalögum mínum þá hef ég reynt að tengja saman þann stað sem ég er á hverju sinni við Suðurnesin. Varðandi Þýskaland væri hægt að skrifa mikið um tengingar þar á milli, meðal annars útaf siglingum togara og báta frá Suðurnesjum við Þýskaland og báta sem voru smíðaðir þar og voru á Suðurnesjunum.
Læt ég hér með lokið umfjöllun minni um Vogana og þakka mikið fyrir áhugann sem þessir pistlar vöktu, en það kom mér mikið á óvart hvað hann var mikill hjá ykkur lesendur góðir.