Björn heim
Það er okkur öllum ljóst þessa dagana að það styttist í alþingiskosningar. Hver greinin á fætur annarri birtist nú á miðlunum og að venju er öllu fögru lofað. Loforðin hljóma alltaf vel því við erum svo andskoti fljót að gleyma. Sumir taka þó upp á nýjungum í baráttunni og fara óhefðbundnar leiðir eins og t.d. að éta hrátt hakk í beinni útsendingu en heilt yfir er þetta sama tuggan og venjulega.
Það ætla allir að gera vel við alla, öryrkjar og aldraðir eiga von á veglegri hækkun og þá verður það leikur einn að reka heimili fyrir barnafjölskyldur landsins. Þó er þess aldrei getið hvar peningarnir eiga að koma fyrir þessu öllu saman en vinsælast er reyndar að nefna nýsköpun því það hljómar svo ótrúlega vel. Enginn stjórnmálamaður vogar sér þó að boða löngu tímabundið aðhald í opinbera geiranum enda lang stærsti hluti kjósenda þar sem alls ekki má styggja. Niðurskurður og tiltekt í opinbera kerfinu ætti í raun að vera eitt af stóru málunum í haust því á síðustu mánuðum hafa miklir fjármunir tapast og skattahækkun á miðstéttina mun ekki ein og sér duga til. Það kæmi manni samt ekki á óvart að við myndum bæta við eins og einum til tveimur sendiráðum á næstunni enda algjörlega nauðsynlegt á þessum tímum! Báknið þenst nefnilega bara og þenst út, ef það verður ekki skorið hressilega niður núna þá gerist það aldrei. Auðvitað eru staðir innan opinbera kerfisins þar sem mætti bæta í fjármagni en það væri gaman að sjá öflugan rekstrarmann taka til hendinni svona heilt yfir í kerfi sem þyrfti miklu meira aðhald.
Hef hugmynd að atkvæðasöfnun fyrir flokkana en sá flokkur sem myndi setja það á stefnu sína (lofa) að sækja Björn Zoëga til Svíþjóðar og láta hann taka við Landspítalanum á nýjan leik myndi skora feitt. Björn hefur ekki einungis snúið rekstrinum við hjá Karólínska-háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi heldur þá hefur hann gert það að einu besta sjúkrahúsi í heimi. Á tímum Covid fimmfaldaði hann gjörgæsludeildina þar á meðan hérna heima hafa stjórnendur og pólitíkin algjörlega sofið á verðinum. Kerfið okkar er að hrynja við nokkrar innlagnir, starfsfólkið að bugast og allt í steik. Þetta verður að laga. Fyrir einhverjum árum var það börnin heim, núna er það Björn heim.