Best í Bestu
Breiðablik eru Íslandsmeistarar í knattspyrnu. Verðskuldaður og frækilegur sigur. Uppgangur hjá félaginu hefur verið mikill undanfarin ár. Yngri flokkastarf félagsins er eitt það öflugasta sem þekkist á landinu. Þeir eru öðrum fyrirmynd. Svona árangur er ekki tilviljun. Hann er afrakstur mikillar vinnu og samstarfs við Kópavogsbæ.
Árangur í Reykjanesbæ hefur verið með besta móti þetta árið. Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik kvenna, knattspyrnulið karla bar sigur úr býtum í 2. deild og bæði lið Keflavíkur náðu árangri umfram væntingar í Bestu deildinni þótt henni sé ekki lokið.
Reykjaneshöllin (nú Nettóhöllin) er elsta og að mínu mati besta knattspyrnuhöll landsins. Glæsilegt mannvirki byggt á þeim dögum þegar Reykjanesbær var yfirlýstur íþróttabær og verkin voru látin tala. Fífan í Kópavogi reis stuttu síðar. Engan veginn jafn gott knatthús en hefur þann kost að vera tengt Smáranum. Ein allsherjar miðstöð. Á sama svæði er svo keppnisvöllur Breiðabliks, með glæsilegum stúkum og aðstöðu eins og hún gerist best hér á landi.
Stóri munurinn í Kópavogi og Reykjanesbæ er sá að Breiðablik sér um allan rekstur sinnar aðstöðu í Kópavogi og fær greitt frá sveitarfélaginu fyrir að sjá um allan reksturinn. Starfsmennirnir í aðstöðunni eru allir starfsmenn Breiðabliks. Þannig má samþætta rekstur mannvirkja og íþróttastarfsemi þannig að hægt er að halda úti alvöru rekstri án þess að forsvarsmenn íþróttafélagsins þurfi stöðugt að vera með í maganum um hver mánaðamót að eiga ekki fyrir launum eða reikningum. Hægt er að stýra fjárflæði milli deilda félagsins og þannig láta reksturinn rúlla vel hjá öllum deildum.
Ég vil sjá fleiri Íslandsmeistaratitla í Reykjanesbæ á komandi árum. Ekki bara í körfuknattleik, heldur líka í knattspyrnu. Árangur 2. flokks liðs Keflavíkur í sumar gefur góð fyrirheit, nú er það verkefni þeirra sem stjórna að gefa ungum mönnum tækifæri til að sanna sig á stóra sviðinu. Þannig var gullaldarlið Keflavíkur byggt upp á sínum tíma.
Reykjanesbær þarf að taka Kópavog og fleiri sveitarfélög sér til fyrirmyndar hvað varðar rekstur íþróttamannvirkja og stuðning við íþróttafélögin. Forsvarsmenn íþróttafélaganna þurfa að líta í spegil, kyngja stoltinu og sameina félögin. Aðeins þannig verðum við best í Bestu.