Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Banvæn blanda
Föstudagur 25. febrúar 2022 kl. 06:22

Banvæn blanda

Lenti í lokasprettinum (vonandi!) á covid halanum ásamt svo mörgum öðrum. Milli þess sem ég reyndi að sinna fjarvinnu, lágmarks heimilisstörfum og Covid sýktum betri helmingi þá nýtti ég heilaþokuna í að hámhorfa þættina Dopesick. Algjört meistaraverk og leikurinn stórbrotinn. Í stuttu máli fjalla þættirnir um bandaríska lyfjafyrirtækið Purdue Pharma og ógeðfellda markaðssetningu þess á lyfinu Oxycontin. Mæli því með áhorfi!

Ef ég hefði ekki verið meðvituð um að þættirnir væru byggðir á sönnum atburðum hefði upplifun áhorfsins virkað sem fjarstæðukenndur skáldskapur, eða eins og kaninn segir: „You can’t make this shit up!“. Minnimáttarkennd eins fjölskyldmeðlims í forríkri og veruleikafirrtri fjölskyldu sem vildi slá hinum við skóp gríðarlegan ópíóða­faraldur í Bandaríkjunum. Afleiðingarnar eru meðal annars þær að frá árinu 1999 hafa um ein milljón Bandaríkjamanna látið lífið af of stórum skammti eiturlyfja og um 70% þeirra vegna ofneyslu ópíóða. Til að setja þetta í samhengi þá er það svipaður fjöldi og látist hefur úr Covid-19 í Bandaríkjunum frá upphafi þess faraldurs. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með blekkingum tókst umræddu lyfjafyrirtæki, Purdue Pharma, að sannfæra lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA), sem almennt þykir ströng, um að ópíóðalyfið Oxycontin væri ekki ávanabindandi vegna hæglosandi eiginleika þess. Það var því háð minni takmörkunum sem galopnaði lyfjamarkaðinn fyrir fyrirtækið árið 1995. Í kjölfarið komu fljótlega í ljós ávanabindandi eiginleikar lyfsins. En í stað þess að bregðast við því þá juku stjórnendur áherslur á söluna í þeim eina tilgangi að hagnast sem mest á lyfinu áður en það yrði gripið inn í. Mannlegt eðli í sinni hráustu útgáfu. Afleiðingarnar eru að árið 2019 misnotuðu yfir tíu milljón Bandaríkjamenn ópíóðalyf, sem er þó lækkun frá þrettán milljónum frá árinu 2015, með tilheyrandi dauðsföllum vegna ofneyslu og afleiðingum fyrir aðstandendur. Óheiðarleiki og græðgi eru sannarlega banvæn blanda.

Þættirnir eru á aðra röndina kennslubókarefni í markaðssetningu lyfja en á hina röndina skólabókardæmi hvað gerist þegar græðgi, veruleikafirring, spilling og sofandi eftirlitsstofnanir fara saman. Hvernig viðbjóðslega rík fjölskylda tortímdi lífi milljóna fjölskyldna til að eignast enn fleiri milljarða. Það tók 24 ár að stöðva Purdue Pharma sem fór loks í gjaldþrot 2019.

Fær mann til að hugsa hversu mikilvægt það er að vera með gagnrýna og sjálfstæða hugsun. Að hafa virkar og sjálfstæðar eftirlitsstofnanir. Og síðast en ekki síst hversu mikilvægir frjálsir og óháðir fjölmiðlar eru. Hvert erum við komin þegar fréttamönnum er ógnað af lögreglunni og þeir eru yfirheyrðir með stöðu sakbornings?! Svo er Donald Trump búinn að hleypa af stokkunum nýrri fréttaveitu, Truth Social. Hlýtur að vera eitthvað grín. Trump og Truth í sömu setningunni. Nú er ég hætt áður en ég missi endanlega trúna á mannkyninu.

Inga Birna Ragnarsdóttir.