Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Bankastjóri
Þriðjudagur 22. október 2019 kl. 07:03

Bankastjóri

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar

Tækniframfarir í fjármálageiranum hafa verið gríðarlegar á undanförnum árum. Flestir greiða kröfur úr stofunni heima í gegnum netbankaþjónustu. Vinnuveitandi millifærir laun til launþega rafrænt. Bankarnir keppast við að eiga besta appið. Bílalán eru samþykkt með rafrænum skilríkjum. Mjög þægileg og góð þjónusta, sem sömuleiðis endurspeglar miklar breytingar í útibúum banka. Ég er minn eigin bankastjóri.

Ef það er hægt að treysta fólki fyrir að vera eigin bankastjórar, af hverju er þá ekki hægt að treysta fólki fyrir því að vera sínir eigin fjárfestar? Um hver mánaðamót greiðir launþegi ríflega fjórðung launa sinna í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðurinn sér um að ávaxta peningana. Með misgóðum árangri. Þannig eignuðust íbúar í Reykjanesbæ til dæmis kísilver.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með nútímatækni ætti ekki að vera flókið að launþegar fengju lífeyrissjóðsframlagið greitt inn á eigin reikning og myndu sjá um að ávaxta þann sparnað sjálfir gegnum sína eigin netbankaþjónustu. Hægt væri að láta peningana liggja þar í umsjá lífeyrissjóðs eða viðkomandi gæti ákveðið að sjá sjálfur um ávöxtun á lífeyrissjóði sínum. Þannig yrðu mun fleiri einstaklingar þátttakendur á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði. Hægt væri að greiða hraðar upp eigið húsnæði, fjárfesta í innviðum ríkisins eða uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara, vegagerð ríkisins og svo mætti lengi telja. Launþegar gætu á vissan hátt með þessu greitt atkvæði með sparnaði sínum en ekki í gegnum dyntóttar ákvarðanir misviturra þingmanna eða fjárfestingastjóra lífeyrissjóða.

Einhverra hluta vegna virðist vera lítill vilji til að nota tæknina á þennan máta. Af hverju skyldi það vera?